Viðskipti innlent

Kauphöllin stækkar á alla kanta

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Nasdaq OMX gefur mánaðarlega út viðskiptayfirlit frá kauphöllum sínum á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum.
Nasdaq OMX gefur mánaðarlega út viðskiptayfirlit frá kauphöllum sínum á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum. Fréttablaðið/GVA
Hlutabréfavelta jókst um 11 prósent milli október og nóvember í Kauphöll Íslands (Nasdaq OMX Iceland) samkvæmt mánaðarlegu viðskiptayfirliti Kauphallarinnar. Þá hækkaði Úrsvalsvísitalan (OMXI6) um 3,56 prósent.

Í lok nóvember voru hlutabréf 17 félaga skráð á Aðalmarkað Kauphallarinnar og First North. Heildarmarkaðsvirði þeirra nam 547 milljörðum króna, 48 prósentum yfir virðinu í nóvember í fyrra þegar það var 369 milljarðar.

Viðskipti með hlutabréf í nóvember námu 19.952 milljónum eða 950 milljónum á dag, að jafnaði. Í október námu viðskipti með hlutabréf 855 milljónum á dag.

„Milli ára er þetta 63 prósenta hækkun,“ segir í tilkynningu Kauphallarinnar, en í nóvember í fyrra námu viðskipti að jafnaði 583 milljónum króna á dag.

Mest voru viðskipti með hlutabréf Icelandair Group, fyrir rúma 6,2 milljarða króna og bréf Marels fyrir 2,9 milljarða. Þar á eftir komu VÍS með tæplega 2,9 milljarða og TM með tæpa 2,7 milljarða króna.

„Viðskipti með skuldabréf námu 169 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 8,1 milljarðs veltu á dag. Þetta er 56 prósenta hækkun frá fyrri mánuði,“ segir í tilkynningu Kauphallar, en í október var skuldabréfavelta á dag 5,2 milljarðar á dag.

Veltuaukning milli ára var eitt prósent. Dagvelta í nóvember í fyrra nam átta milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×