Innlent

Eru báðir jóladrengir

Símon Birgisson skrifar
Bogomil font og Samúel Jón Samúelsson, mennirnir á bak við majónes jólin.
Bogomil font og Samúel Jón Samúelsson, mennirnir á bak við majónes jólin. Fréttablaðið/GVA
Það verða majónes-jól í Silfurbergi, Hörpu, á sunnudaginn þegar Stórsveit Reykjavíkur ásamt Bogomil Font heldur sína árlegu jólatónleika. Jólaplata Bogomils, Majónes jól, sem kom út fyrir nokkrum árum verður spiluð í heild sinni en stjórnandi er Samúel J. Samúelsson.

„Þessi plata var nú upphaflega svolítið prívat grín en það er auðvitað frábært þegar fólk hefur gaman af því sem þú ert að gera,“ segir Sigtryggur Baldursson – Bogomil Font. Majónes jól eru óðum að komast í hóp hinna „klassísku“ jólaplatna og hljóma lög af henni reglulega í útvarpinu yfir hátíðirnar.

Viljum njóta jólanna

„Þetta átti nú aldrei að verða einhver vinsældaplata. Okkur fannst þetta bara skemmtileg músík og reyndum að nálgast þetta á einlægan hátt. Þó að sumir textarnir virki svolítið kaldhæðnir þá erum við einlægir í því að skemmta okkur og njóta jólanna.“

Sigtryggur segir Majónes jólin vera innblásin af kalypsó-músík. „Galdurinn á bak við kalypsó liggur í textagerðinni. Maður þarf að geta gert grín að hlutum en þykja vænt um þá í leiðinni. Þannig eru Majónes jólin. Við Samúel erum báðir miklir jóladrengir en svo eru ákveðnir hlutir við jólin sem fara líka í taugarnar á okkur – öll þessi neyslugeðveiki og sölumennska og við gerum grín að þessu en þykir vænt um allt þetta stúss á sama tíma.“

Tónleikarnir hefjast á sunnudaginn klukkan 17.00. Sigtryggur segir þetta enga risatónleika heldur kærkomið tækifæri til að tylla sér niður, hluta á jólatónlist og njóta augnabliksins.

„Þetta eru afslappaðir fjölskyldutónleikar þar sem við spilum lögin af plötunni. Bara svona klukkutími. Þetta eru ekki risajólatónleikar í Laugardalshöll heldur hugsaðir sem léttir síðdegissunnudagstónleikar fyrir kvöldmatinn.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×