Viðskipti innlent

Metafgangur þjónustuviðskipta

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Samgöngur eru stærsti liður þjónustuútflutnings. Afgangur vegna viðskiptanna nemur 32,8 milljörðum á þriðja ársfjórðungi.
Samgöngur eru stærsti liður þjónustuútflutnings. Afgangur vegna viðskiptanna nemur 32,8 milljörðum á þriðja ársfjórðungi. Fréttablaðið/Anton
Á sama tíma og heldur halla á vöruskipti við útlönd milli ára er metafgangur á þjónustuviðskiptum, að því er fram kemur í tölum sem Hagstofa Íslands birti í gær.

Fyrstu tíu mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir 508,9 milljarða króna en inn fyrir 457,6 milljarða.

Afgangur á vöruskiptum við útlönd er því 51,3 milljarðar, en var 64,1 milljarður í fyrra. Vöruskiptajöfnuður var því 12,8 milljörðum, eða rétt tæpum 20 prósentum, lakari en á sama tíma árið áður.

Í október einum var 7,1 milljarðs afgangur á vöruskiptum miðað við 15,1 milljarðs afgang ári fyrr.

Um leið sýna bráðabirgðatölur útflutning þjónustu upp á 141,3 milljarða á þriðja ársfjórðungi og innflutning fyrir 95,2 milljarða. Þjónustujöfnuður er því jákvæður um 46 milljarða á tímabilinu, 31 prósenti meiri en í fyrra þegar hann var 35 milljarðar.

Fram kemur í morgunkorni Greiningar Íslandsbanka að afgangurinn sé meiri en nokkru sinni á einum ársfjórðungi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×