Viðskipti innlent

"Lúxus“ að fá iPhone til Íslands

Freyr Bjarnason skrifar
Hörður Ágústsson hefur beðið í mörg ár eftir samningnum við Apple.
Hörður Ágústsson hefur beðið í mörg ár eftir samningnum við Apple. fréttablaðið/vilhelm
Hörður Ágústsson, framkvæmdastjóri Macland sem selur Apple-vörur, er ánægður með samning Apple við íslensk fjarskiptafyrirtæki. Þau munu bjóða milliliðalaust upp á vörur fyrirtæksins frá og með 13. desember.

„Maður er búinn að heyra þetta í mörg ár að þetta sé að fara að bresta á en svo gerist það allt í einu og það er bara frábært,“ segir Hörður. „iPhone fer úr því að vera lúxusvara sem er til dæmis keypt í gegnum menn í svörtum BMW-bifreiðum sem láta menn bíða í biðröðum fyrir utan Apple-búðir í Bretlandi, í það að núna er Apple TV eina Apple-varan sem er eftir sem er ekki hægt að fá formlega á Íslandi. Það eru stórkostlegar fréttir,“ segir hann.

Í stað þess að kaupa iPhone í gegnum sömu birgja mun hann, rétt eins og Epli.is, væntanlega kaupa símana af fjarskiptafyrirtækjunum. „Ég get ekki beðið eftir að geta keypt síma af þessum fyrirtækjum. Þetta verður þvílíkur lúxus.“

Hann segir viðgerðaþjónustuna væntanlega breytast þannig að menn geta keypt sér síma í Evrópu og látið gera við þá á Íslandi og öfugt. Sama verður ekki hægt með síma keypta í Bandaríkjunum því miður. „Með þessari verðlækkun má gera ráð fyrir að Íslendingar kaupi töluvert minna af iPhone í Bandaríkjunum fyrir jólin því það er engin ábyrgð á þeim hérlendis.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×