Viðskipti innlent

iPhone lækkar um allt að fimmtíu þúsund krónur

Freyr Bjarnason skrifar
Fjarskiptafyrirtækin ætla að bjóða upp á snjallsímana iPhone 5s og iPhone 5 milliliðalaust frá og með 13. desember.
Fjarskiptafyrirtækin ætla að bjóða upp á snjallsímana iPhone 5s og iPhone 5 milliliðalaust frá og með 13. desember. fréttablaðið/ap
Fjarskiptafyrirtækin Vodafone, Síminn og Nova munu frá og með 13. desember bjóða upp á snjallsímana iPhone 5s og iPhone 5c milliliðalaust.

Hingað til hafa fyrirtækin keypt símana í gegnum erlenda milliliði en núna þarf þess ekki lengur vegna samninga sem hafa verið undirritaðir við Apple. Símarnir verða því fáanlegir á Íslandi á svipuðum tíma og í stærri löndum Evrópu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins lækkar útsöluverð iPhone alls staðar, og getur sú lækkun numið allt að fimmtíu þúsund krónum.

Aðspurð segist Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, vera mjög ánægð með samninginn. „Við hjá Nova höfum unnið að því um langt skeið að ná þessum beina samningi við Apple og það er mikið fagnaðarefni að það hafi nú tekist.

iPhone er vinsælasti farsíminn hjá viðskiptavinum Nova en nú þegar eru yfir fjörutíu þúsund iPhone-farsímar í notkun á farsímakerfi Nova,“ segir hún. „Við erum að bjóða mjög gott verð á þessum símum í dag. Þeir munu lækka eitthvað í verði en mismikið eftir tegundum. Við getum ekki boðið símana á sama verði og í Ameríku heldur verður það nær því sem þekkist á Norðurlöndum.“

Samkvæmt heimildum blaðsins gerir samningur Vodafone við Apple að verkum að viðskiptavinir fyrirtækisins geti notfært sér 4G-virkni iPhone og iPad sem skilar sér í auknum gagnaflutningshraða. Hingað til hefur gagnaflutningshraði tækjanna verið takmarkaður við 3G.

Hvað varðar 4G-mál hjá Nova, segir Liv undir Apple komið að opna fyrir þjónustuna. „Það hefur þegar verið gert fyrir iPad og við erum að vona að það verði gert fyrir iPhone í desember. Nova er eina farsímafyrirtækið sem býður upp á 4G-þjónustu í farsíma. Við vitum að viðskiptavinir okkar bíða spenntir eftir að fá 4G í iPhone,“ segir hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×