Viðskipti innlent

Rafræn skilríki komin í farsíma

Þorgils Jónsson skrifar
Möguleikum sem fylgja fjarskiptabyltingunni fjölgar stöðugt.
Möguleikum sem fylgja fjarskiptabyltingunni fjölgar stöðugt. Mynd/Síminn
Ný farsímakort frá Símanum eru nú orðin fullgild rafræn skilríki sem gilda fyrst um sinn inni á þjónustusíðum Símans, en innan tíðar munu fleiri fyrirtæki og stofnanir bjóða upp á slíkt.

Í fréttatilkynningu segir að rafræn skilríki muni í framtíðinni gera notenda- og lykilorð óþörf, þar sem aðeins eitt PIN-númer muni gilda fyrir alla þjónustu.

Innleiðing rafrænna skilríkja fyrir farsíma er afrakstur samstarfs Símans, Auðkennis og viðskiptabankanna, en Þór Jes Þórisson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Símans, segir í tilkynningunni að netbankar, tryggingafélög og ríkisstofnanir muni væntanlega bjóða slíka þjónustu fljótlega.

Haraldur A. Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, segir róttækar breytingar fram undan þar sem skilríki á farsíma sé hægt að nota hvar og hvenær sem er.

„Hvort sem þjónustan er sótt í gegnum símann, spjaldtölvuna, fartölvuna eða gömlu góðu borðtölvuna, þá virka skilríkin. Allt sem þarf er farsími og PIN.“

Haraldur segir að í framtíðinni verði jafnvel hægt að kjósa með hjálp farsímans. „Þetta er ekki aðeins öruggari leið en þekkist með hefðbundnu notendanafni og lykilorði heldur mun þægilegri þar sem viðskiptavinir þurfa ekki að muna fjölmörg ólík notendanöfn og lykilorð inn á vefi sem notaðir eru sjaldan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×