Viðskipti innlent

Máttu leggja og reka ljósleiðara

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Félag var stofnað um rekstur ljósleiðarans og þjónustuveitur fá heildsöluaðgang á jöfnum kjörum.
Félag var stofnað um rekstur ljósleiðarans og þjónustuveitur fá heildsöluaðgang á jöfnum kjörum.
Ríkisaðstoð sem felst í fjármögnun lagningar og rekstri Skeiða- og Gnúpverjahrepps á ljósleiðara brýtur ekki gegn EES-samningnum.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) segir verkefnið til þess fallið að auka samkeppnishæfni þessa dreifbýla svæðis og að ekki hafi verið líkur á að fjárfest yrði í slíkum háhraðanettengingum í sveitarfélaginu á markaðsforsendum í náinni framtíð.

Þar að auki hefði verkefnið í för með sér stóraukið framboð á hágæða fjarskiptaþjónustu fyrir íbúa og fyrirtæki á svæðinu.

„Þegar almannafé er nýtt til að fjármagna framkvæmdir á borð við þessa er mikilvægt að ganga úr skugga um að virk samkeppni geti þrifist innan kerfisins. Með því er tryggt að íbúar og fyrirtæki njóti stöðugt batnandi fjarskiptaþjónustu á samkeppnishæfum kjörum,“ er haft eftir Oda Helen Sletnes, forseta Eftirlitsstofnunar EFTA, í tilkynningu stofnunarinnar.

Sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps ákvað árið 2012 að fjármagana uppbyggingu ljósleiðarakerfisins. „Tvenn útboð voru haldin varðandi uppbyggingu ljósleiðarakerfisins og sveitstjórn stofnaði sérstakt félag til að sjá um rekstur kerfisins,“ segir í tilkynningu ESA. Þá geti allar þjónustuveitur sem þess óska fengið heildsöluaðgang að kerfinu á jöfnum kjörum.

„ESA hefur haft málið til athugunar í kjölfar þess að stofnuninni barst kvörtun í lok árs 2012. Frumrannsókn stofnunarinnar hefur leitt í ljós að skipulag kerfisins og tilhögunin varðandi heildsöluaðgang þjónustuaðila gera það að verkum að röskun á samkeppni vegna íhlutunar sveitafélagsins er haldið í lágmarki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×