Einföldun að einblína á kynferðið Friðrika Benónýsdóttir skrifar 9. nóvember 2013 10:00 Kolbrún Benediktsdóttir Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, er aðeins 35 ára gömul en á að baki lífsreynslu sem fæstir upplifa á 75 árum. Kolbrún býður mér inn á skrifstofu sína í húsakynnum Ríkissaksóknara þar sem Harpan, hafið og Esjan blasa við út um gluggann. Hún segist kunna vel við sig á þessum stað þótt skrifstofan sé ekki stór og henni leiðist bókstaflega aldrei í vinnunni, enda hafi hún alveg óskaplega gaman af að tala. „Ég byrjaði hérna 2006 og hef verið hér síðan. Útskrifaðist haustið 2005 og þetta var fyrsti vinnustaðurinn. Ég hafði verið hérna á kúrsus eitt sumar á meðan ég var í náminu og fannst refsirétturinn alltaf mjög skemmtilegur. Mér finnst ég bara hafa verið mjög heppin að hafa komist hér að og er ekkert að hugsa mér til hreyfings.“ Í hverju felst starfið? „Stærsti hlutinn af starfinu felst í því að taka við fullrannsökuðum málum í þeim málaflokkum sem við höfum ákæruvaldið í, fara í gegnum málsgögnin og leggja mat á það í fyrsta lagi hvort lögreglurannsókninni sé lokið og taka ákvörðun um hvort við gefum út ákæru í málinu. Ef það vantar eitthvað upp á rannsóknina þá sendum við þau aftur í rannsókn. Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að sanna að sá sem er grunaður hafi framið brotið fellum við málið niður en annars leggjum við fram ákæru og fylgjum málinu eftir bæði í héraði og svo í Hæstarétti þegar maður er orðinn saksóknari. Þetta er mikill málflutningur, stundum tvisvar þrisvar í viku, og álagið alltaf að aukast. Við rannsökum líka kærur á hendur lögreglumönnum og ef lögreglustjóri hættir rannsókn máls og sú ákvörðun er kærð þá endurskoðum við þá ákvörðun. Þannig að þetta er ansi fjölbreytt starf.“Verður að vera samræmi í dómumNú er mikil umræða í þjóðfélaginu um slaka nýtingu á refsirammanum, sérstaklega í kynferðisbrotamálum, getið þið haft einhver áhrif á það að dómar þyngist? „Ef við skoðum dóma nokkur ár aftur í tímann þá sjáum við að þeir eru alltaf að þyngjast og refsingar fyrir nauðgun eru töluvert hærri hér á Íslandi en til dæmis í Danmörku. Dómstólar eru hins vegar auðvitað bundnir af fordæmum, þeir stökkva ekkert frá þremur og hálfu ári fyrir nauðgun, eins og algengt er í dag, upp í sjö ár. Það verður alltaf að vera ákveðið samhengi en almennt eru refsingar fyrir þessi brot að þyngjast þannig að þetta gerist svona smám saman. Svo eru auðvitað skiptar skoðanir um það hvort þyngd refsinga sé það eina sem skipti máli. Ég hef dálítið verið að skoða meðferðarúrræði fyrir gerendur í kynferðisbrotamálum í samstarfi við kollega á Norðurlöndunum og þau eru mér hugleikin, sérstaklega þegar um er að ræða unga gerendur. Við þurfum að hugsa refsipólitíkina alla leið, það er ekki nóg að setja menn í fangelsi það þarf líka að reyna að vinna að því að þeir brjóti ekki af sér aftur.“Það hefur líka vakið athygli að konur í Hæstarétti skila oft séráliti í svona málum, hafa þær aðra sýn á þau en karlarnir? „Það er erfitt að alhæfa en ég er alveg viss um það að öll reynsla okkar hefur áhrif í því sem við erum að gera. Dómarar eru engin undantekning frá því og sjálfsagt hefur kynferðið einhver áhrif en mér finnst ódýrt að segja að kynferði eitt og sér ráði afstöðu. Við þekkjum ákveðna hluti sem konur og sama gildir auðvitað um karlana. Dómarar eru hins vegar alltaf að dæma eftir lögunum og það er of mikil einföldun að segja að mismunandi sýn á mál helgist bara af kynferði.“Lagalega hugtakið er manndráp Kolbrún var saksóknari í morðmálinu á Egilsstöðum og þar var refsiramminn nánast fullnýttur í héraðsdómi, er það reglan í morðmálum? „Já, það er yfirleitt sextán ára dómur fyrir manndráp. Það er ekki hægt að ganga lengra en að svipta aðra manneskju lífi þannig að í slíkum málum er refsiramminn alla jafna fullnýttur. Í öðrum brotaflokkum er eðlilegt að ákveðið svigrúm sé fyrir hendi þar sem brotin eru misalvarleg og aðstæður mismunandi.“Þú talar um manndráp, er ekki talað um morð í íslenskum lögum? „Nei, lagalega hugtakið sem notast er við er manndráp. Undir manndrápshugtakið falla hins vegar mismunandi stig ásetnings, allt frá því að menn fari af stað beinlínis í þeim tilgangi að svipta einhvern lífi yfir í að það að sé langlíklegasta afleiðingin af háttseminni.“Flestir þekkja störf saksóknara einungis úr amerískum bíómyndum og sjónvarpsþáttum og þar virðist þetta afskaplega „glamourous“ starf, er það raunin? „Nei, ég held þetta sé ekki einu sinni svona „glamourous“ í Bandaríkjunum. En mér finnst þetta mjög skemmtilegt starf þótt sumum finnist það kannski skrítið, sérstaklega í ljósi þess að helmingurinn af málunum sem maður er með eru kynferðisbrot. Auðvitað eru þetta oft alveg hræðileg mál en mér finnst mjög gaman í vinnunni, sérstaklega í málflutningi. Maður veit aldrei almennilega á hverju er von, þarf að vera vel undirbúinn og tilbúinn að takast á við eitthvað óvænt. Maður veit aldrei hvað vitnin muni segja fyrir dómi þannig að maður verður að vera fljótur að spotta það þegar þau fara að breyta framburði og svo framvegis. Það verður oft svolítið at og það er svo spennandi.“Fjölmiðlar flækja málin Manni hefur einmitt sýnst það undanfarið að það sé farið að færast meira fjör í leikinn í dómsölunum... „Já, það er satt en þar koma fjölmiðlarnir líka inn í. Fjölmiðlafólk er farið að mæta í dómsal í málum þekktra sakborninga og stundum er þetta bara nánast bein útsending úr réttarhaldinu. Fólk getur bara setið heima og skoðað netmiðlana og fylgst með flestu sem sagt er. Þessu fylgir ákveðinn vandi fyrir okkur því reglan er sú að vitni mega ekki sitja inni í sal og fylgjast með réttarhaldinu fyrr en þau eru búin að gefa skýrslu. Það er auðvitað til komið af því að það er óæskilegt að þau heyri hvað hin vitnin segja og geti breytt vitnisburði sínum til samræmis. Nú sitja vitnin bara með símana og fá skýrslur hinna vitnanna beint í æð. Þannig að það hefur komið fyrir að það hafi verið óskað eftir því við fjölmiðla að þeir bíði með fréttaflutning á meðan sakborningar gefa skýrslu.“Hefur þessi aukni áhugi fjölmiðla einhver áhrif á það hvernig þið leggið málin upp? „Nei, alls ekki. Ég er allavega þannig að um leið og ég byrja málflutninginn dett ég alveg inn í málið og hætti að taka eftir því að einhver sé að fylgjast með. Það reynir mjög mikið á ákærandann í dómsal. Auðvitað stjórnar dómari þinghaldi en ákærandinn leggur málið upp og setur dagskrána upp. Yfirleitt er það líka þannig að dómarar leyfa ákærandanum að leiða þetta áfram þannig að maður þarf að hafa mikla yfirsýn og þekkja málið mjög vel og geta brugðist við ef sakborningar og vitni breyta framburði og taka tillit til þess sem fram kann að koma sem er ákærða til hagsbóta, benda á það og taka það með í reikninginn.“Varstu alltaf ákveðin í að fara í lögfræðina? „Nei, það var eiginlega algjör tilviljun. Ég fór fyrst í eitt ár í íslensku og ætlaði svo í rússnesku, en hún var felld niður vegna lélegrar þátttöku árið sem ég ætlaði í hana þannig að ég þurfti að velja eitthvað annað. Ég náði mér í skráningareyðublað og fór á kaffihús með vinkonum mínum og einhvern veginn kom þessi hugmynd upp í einhverjum hálfkæringi að skella sér bara í lögfræði.“ Og var það ást við fyrstu sýn? „Nei, ekki beint. Að koma úr Árnagarði í sal tvö í Háskólabíói með þrjú hundruð manns fannst mér ekki spennandi. En ég ákvað að láta mig hafa það og hætta bara ef ég félli í almennu lögfræðinni. Ég náði henni svo og þá varð maður að halda áfram og þá breyttist sýn mín á fagið. Ég sá að þetta hentaði mér vel og hef aldrei séð eftir því að hafa haldið mig við lögfræðina.“Missti fyrsta barnið Kolbrún útskrifaðist haustið 2005, þá háólétt af sínu fyrsta barni. Barnið sem var stúlka fæddist í janúar 2006 en lifði aðeins í tólf tíma. „Þetta var erfið fæðing og hún varð fyrir miklum súrefnisskorti í fæðingunni. Hún var endurlífguð en það var of seint. Við náðum samt að skíra hana Rósu í höfuðið á mömmu áður en hún dó.“ Það er greinilegt að það er Kolbrúnu erfitt að tala um þessa reynslu og hún segir þetta hafa verið hræðilega erfiðan tíma. „Maður varð að endurraða öllum púslunum og við maðurinn minn, Haukur Agnarsson, tókum okkur bæði góðan tíma í að jafna okkur. Ég var náttúrulega nýútskrifuð og ekki komin með vinnu þannig að ég frestaði því bara að leita mér að starfi og byrjaði ekki að vinna fyrr en í maí. Við höfðum lengi reynt að eignast barn og þetta var mjög mikið áfall og það tók bara þennan tíma að jafna sig bæði andlega og líkamlega.“ Í maí 2007 eignaðist Kolbrún annað barn sitt, stúlku sem skírð var Sigurrós, þá beið annað áfall. „Hún var með hjartagalla sem greindist þegar hún var sólarhringsgömul og fór í aðgerð samdægurs. Ég viðurkenni alveg að þetta var mikið áfall en aðgerðin gekk eins og í sögu og hún þurfti ekki að vera á vökudeildinni nema í tólf daga og er hin hraustasta í dag.“Fréttablaðið/ValliEnn eitt áfallið Tveimur árum síðar fæddist þriðja barnið, sonurinn Vilhjálmur, sem greindist með CP-fötlun. „Hann er hreyfihamlaður og spastískur, en ofsalega duglegur strákur, gengur í göngugrind og við erum að vona að hann geti kannski sleppt henni inni við með tíð og tíma. CP verður til vegna tímabundins skorts á súrefnisflæði til heilans á meðgöngu eða í fæðingu og það er misjafnt eftir börnum hvernig fötlunin lýsir sér. Hjá honum er þetta aðallega bundið við fæturna og miðju líkamans en það er enginn greindarskortur og hann á örugglega eftir að komast langt á sjarmanum.“Þannig að þetta var eitt áfallið í viðbót? „Já, auðvitað, en það er öðruvísi áfall að eignast barn sem er fatlað. Sem foreldri vill maður auðvitað að börnin manns séu heilbrigð og eigi eftir að lifa alveg fullkomnu lífi og það er erfiðast að sætta sig við að hann muni aldrei geta gert vissa hluti. En auðvitað skilur maður fljótlega að þetta er algjörlega röng hugsun, það þýðir ekkert að eyða lífinu í það að grenja yfir því sem hann getur ekki, miklu heldur að fókusera á það sem hann getur sem er alveg ótrúlega margt. Það eru í rauninni bara manns eigin fordómar eða þekkingarleysi sem valda því að maður hugsar svona. Ég ætla að ala hann þannig upp að hann hugsi um það sem hann geti en ekki hvað hann geti ekki. Hann er líka alveg frábær, jákvæður með fjörugt ímyndarafl og það mun fleyta honum mjög langt.“Deit í crossfit Hvernig gengur að púsla þessu öllu saman? Þú ert í mjög krefjandi starfi með fatlað barn, ertu ekki alveg örmagna? „Nei, nei, nei. Ég og maðurinn minn eigum góða að, tengdamóðir mín er ekkja og vinnur ekki úti og hefur reynst okkur algjörlega ómetanleg. Foreldrar mínir hjálpa okkur líka mikið, þótt þau séu bæði útivinnandi. Síðan skiptumst við maðurinn minn á um að sjá um heimilið en við reynum alltaf bæði að koma heim í kvöldmat og svæfum börnin og förum svo bara að vinna aftur þegar þau eru sofnuð. Ég er ekkert að bera á móti því að maður er oft mjög þreyttur en við hjónin byrjuðum saman í crossfit fyrir tveimur árum og það hefur hjálpað mjög mikið. Það er svo nauðsynlegt að gefa sér tíma fyrir sjálfan sig og sinna einhverju áhugamáli. Ég finn hvað crossfit-ið gerir mér gott, þar fær maður bæði útrás og svo styrkir það líkamann. Það er mjög líkamlega erfitt að eiga fatlað barn sem maður þarf að bera mjög mikið og ég held ég væri alveg farin í bakinu ef ég væri ekki að æfa. Þetta er líka það besta sem við höfum gert fyrir okkur sem par. Einu sinni í viku fáum við barnapíu og förum þá saman á æfingu, það er okkar „date night“.“ Ofan á allt annað er Kolbrún að kenna í lagadeild H.Í., meðal annars alþjóðlegan refsirétt. „Það er mitt áhugasvið innan lögfræðinnar og stundum hugsa ég að það gæti verið gaman að fara í framhaldsnám og fá að stunda rannsóknir á þessu sviði. Það kemur bara í ljós. Maður er enn þá ungur og allar leiðir opnar.“ Mest lesið Hótað og ógnað eftir að hafa aðstoðað lögreglu Innlent Hefði sagt nei: Sumarfrí bæjarfulltrúa opnaði fyrir endurskipulag á Nónhæð Innlent Hitinn víða yfir 50 stig og vatnsforðinn að þorna upp Erlent Brú skóf þakið af tveggja hæða rútu Erlent Lögreglan hugsi yfir Skildi Íslands: Eitt lögbrot verði ekki réttlætt með öðru Innlent Ekki hægt að draga ályktanir um hver varð manninum „líklegast“ að bana Innlent Laugavegurinn að „deyja úr velgengni“ Innlent Loftgæði mun betri á höfuðborgarsvæðinu Innlent Segjast komnir með nóg og ætla að gæta að framtíð Íslands Innlent Eldur í verslunarhúsnæði á Laugavegi Innlent Fleiri fréttir Tveir af þremur ánægðir með beitingu „kjarnorkuákvæðisins“ Alvarlega slösuð bankakona lagði VÍS eftir langa og stranga baráttu Lærði skriðsund á YouTube og syndir Ermarsund á morgun Sjálfsagt að taka málið fyrir: „Leysist ekkert sjálfkrafa við að ganga inn í Evrópusambandið“ Lögreglan hugsi yfir Skildi Íslands: Eitt lögbrot verði ekki réttlætt með öðru Eldur í verslunarhúsnæði á Laugavegi Play tekur dýfu í skugga afkomuviðvörunar og Njáll Trausti vill funda Hótað og ógnað eftir að hafa aðstoðað lögreglu Laugavegurinn að „deyja úr velgengni“ Loftgæði mun betri á höfuðborgarsvæðinu Njáll Trausti vill fund hið fyrsta í atvinnuveganefnd Hefði sagt nei: Sumarfrí bæjarfulltrúa opnaði fyrir endurskipulag á Nónhæð Með vesen í miðborginni og á bráðamóttöku og síðar handtekinn vegna þjófnaðar Virknin bundin við einn gíg: Gasmengunar gæti orðið vart á Suðurlandi Ekki hægt að draga ályktanir um hver varð manninum „líklegast“ að bana Hvalreki í Vogum Gosmóðan gæti setið sem fastast fram á fimmtudag: „Menn verða að taka þetta alvarlega“ Hefur áhyggjur af málflutningi „taugaveiklaðrar“ stjórnarandstöðu Lokuð inni með lokað fyrir glugga í þrjá daga Fundurinn vonbrigði: „Þetta leikrit er hafið“ Búin að vera lokuð inni í þrjá daga vegna gosmóðunnar Vopnað rán og skartgripaþjófnaður í Reykjavík Einfaldlega nýnastistar sem þýði meira ofbeldi og átök Maðurinn sem lýst var eftir fundinn Fordæma Hamas og segja áform um „mannúðarborg“ óviðunandi Stofna grunnskóla fyrir einhverf börn í Garðabæ Loftgæði versnandi á gosstöðvunum Segjast komnir með nóg og ætla að gæta að framtíð Íslands Sex spænskar orrustuþotur á leið til landsins Hafa tapað tvö hundruð milljónum króna vegna fjársvika Sjá meira
Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, er aðeins 35 ára gömul en á að baki lífsreynslu sem fæstir upplifa á 75 árum. Kolbrún býður mér inn á skrifstofu sína í húsakynnum Ríkissaksóknara þar sem Harpan, hafið og Esjan blasa við út um gluggann. Hún segist kunna vel við sig á þessum stað þótt skrifstofan sé ekki stór og henni leiðist bókstaflega aldrei í vinnunni, enda hafi hún alveg óskaplega gaman af að tala. „Ég byrjaði hérna 2006 og hef verið hér síðan. Útskrifaðist haustið 2005 og þetta var fyrsti vinnustaðurinn. Ég hafði verið hérna á kúrsus eitt sumar á meðan ég var í náminu og fannst refsirétturinn alltaf mjög skemmtilegur. Mér finnst ég bara hafa verið mjög heppin að hafa komist hér að og er ekkert að hugsa mér til hreyfings.“ Í hverju felst starfið? „Stærsti hlutinn af starfinu felst í því að taka við fullrannsökuðum málum í þeim málaflokkum sem við höfum ákæruvaldið í, fara í gegnum málsgögnin og leggja mat á það í fyrsta lagi hvort lögreglurannsókninni sé lokið og taka ákvörðun um hvort við gefum út ákæru í málinu. Ef það vantar eitthvað upp á rannsóknina þá sendum við þau aftur í rannsókn. Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að sanna að sá sem er grunaður hafi framið brotið fellum við málið niður en annars leggjum við fram ákæru og fylgjum málinu eftir bæði í héraði og svo í Hæstarétti þegar maður er orðinn saksóknari. Þetta er mikill málflutningur, stundum tvisvar þrisvar í viku, og álagið alltaf að aukast. Við rannsökum líka kærur á hendur lögreglumönnum og ef lögreglustjóri hættir rannsókn máls og sú ákvörðun er kærð þá endurskoðum við þá ákvörðun. Þannig að þetta er ansi fjölbreytt starf.“Verður að vera samræmi í dómumNú er mikil umræða í þjóðfélaginu um slaka nýtingu á refsirammanum, sérstaklega í kynferðisbrotamálum, getið þið haft einhver áhrif á það að dómar þyngist? „Ef við skoðum dóma nokkur ár aftur í tímann þá sjáum við að þeir eru alltaf að þyngjast og refsingar fyrir nauðgun eru töluvert hærri hér á Íslandi en til dæmis í Danmörku. Dómstólar eru hins vegar auðvitað bundnir af fordæmum, þeir stökkva ekkert frá þremur og hálfu ári fyrir nauðgun, eins og algengt er í dag, upp í sjö ár. Það verður alltaf að vera ákveðið samhengi en almennt eru refsingar fyrir þessi brot að þyngjast þannig að þetta gerist svona smám saman. Svo eru auðvitað skiptar skoðanir um það hvort þyngd refsinga sé það eina sem skipti máli. Ég hef dálítið verið að skoða meðferðarúrræði fyrir gerendur í kynferðisbrotamálum í samstarfi við kollega á Norðurlöndunum og þau eru mér hugleikin, sérstaklega þegar um er að ræða unga gerendur. Við þurfum að hugsa refsipólitíkina alla leið, það er ekki nóg að setja menn í fangelsi það þarf líka að reyna að vinna að því að þeir brjóti ekki af sér aftur.“Það hefur líka vakið athygli að konur í Hæstarétti skila oft séráliti í svona málum, hafa þær aðra sýn á þau en karlarnir? „Það er erfitt að alhæfa en ég er alveg viss um það að öll reynsla okkar hefur áhrif í því sem við erum að gera. Dómarar eru engin undantekning frá því og sjálfsagt hefur kynferðið einhver áhrif en mér finnst ódýrt að segja að kynferði eitt og sér ráði afstöðu. Við þekkjum ákveðna hluti sem konur og sama gildir auðvitað um karlana. Dómarar eru hins vegar alltaf að dæma eftir lögunum og það er of mikil einföldun að segja að mismunandi sýn á mál helgist bara af kynferði.“Lagalega hugtakið er manndráp Kolbrún var saksóknari í morðmálinu á Egilsstöðum og þar var refsiramminn nánast fullnýttur í héraðsdómi, er það reglan í morðmálum? „Já, það er yfirleitt sextán ára dómur fyrir manndráp. Það er ekki hægt að ganga lengra en að svipta aðra manneskju lífi þannig að í slíkum málum er refsiramminn alla jafna fullnýttur. Í öðrum brotaflokkum er eðlilegt að ákveðið svigrúm sé fyrir hendi þar sem brotin eru misalvarleg og aðstæður mismunandi.“Þú talar um manndráp, er ekki talað um morð í íslenskum lögum? „Nei, lagalega hugtakið sem notast er við er manndráp. Undir manndrápshugtakið falla hins vegar mismunandi stig ásetnings, allt frá því að menn fari af stað beinlínis í þeim tilgangi að svipta einhvern lífi yfir í að það að sé langlíklegasta afleiðingin af háttseminni.“Flestir þekkja störf saksóknara einungis úr amerískum bíómyndum og sjónvarpsþáttum og þar virðist þetta afskaplega „glamourous“ starf, er það raunin? „Nei, ég held þetta sé ekki einu sinni svona „glamourous“ í Bandaríkjunum. En mér finnst þetta mjög skemmtilegt starf þótt sumum finnist það kannski skrítið, sérstaklega í ljósi þess að helmingurinn af málunum sem maður er með eru kynferðisbrot. Auðvitað eru þetta oft alveg hræðileg mál en mér finnst mjög gaman í vinnunni, sérstaklega í málflutningi. Maður veit aldrei almennilega á hverju er von, þarf að vera vel undirbúinn og tilbúinn að takast á við eitthvað óvænt. Maður veit aldrei hvað vitnin muni segja fyrir dómi þannig að maður verður að vera fljótur að spotta það þegar þau fara að breyta framburði og svo framvegis. Það verður oft svolítið at og það er svo spennandi.“Fjölmiðlar flækja málin Manni hefur einmitt sýnst það undanfarið að það sé farið að færast meira fjör í leikinn í dómsölunum... „Já, það er satt en þar koma fjölmiðlarnir líka inn í. Fjölmiðlafólk er farið að mæta í dómsal í málum þekktra sakborninga og stundum er þetta bara nánast bein útsending úr réttarhaldinu. Fólk getur bara setið heima og skoðað netmiðlana og fylgst með flestu sem sagt er. Þessu fylgir ákveðinn vandi fyrir okkur því reglan er sú að vitni mega ekki sitja inni í sal og fylgjast með réttarhaldinu fyrr en þau eru búin að gefa skýrslu. Það er auðvitað til komið af því að það er óæskilegt að þau heyri hvað hin vitnin segja og geti breytt vitnisburði sínum til samræmis. Nú sitja vitnin bara með símana og fá skýrslur hinna vitnanna beint í æð. Þannig að það hefur komið fyrir að það hafi verið óskað eftir því við fjölmiðla að þeir bíði með fréttaflutning á meðan sakborningar gefa skýrslu.“Hefur þessi aukni áhugi fjölmiðla einhver áhrif á það hvernig þið leggið málin upp? „Nei, alls ekki. Ég er allavega þannig að um leið og ég byrja málflutninginn dett ég alveg inn í málið og hætti að taka eftir því að einhver sé að fylgjast með. Það reynir mjög mikið á ákærandann í dómsal. Auðvitað stjórnar dómari þinghaldi en ákærandinn leggur málið upp og setur dagskrána upp. Yfirleitt er það líka þannig að dómarar leyfa ákærandanum að leiða þetta áfram þannig að maður þarf að hafa mikla yfirsýn og þekkja málið mjög vel og geta brugðist við ef sakborningar og vitni breyta framburði og taka tillit til þess sem fram kann að koma sem er ákærða til hagsbóta, benda á það og taka það með í reikninginn.“Varstu alltaf ákveðin í að fara í lögfræðina? „Nei, það var eiginlega algjör tilviljun. Ég fór fyrst í eitt ár í íslensku og ætlaði svo í rússnesku, en hún var felld niður vegna lélegrar þátttöku árið sem ég ætlaði í hana þannig að ég þurfti að velja eitthvað annað. Ég náði mér í skráningareyðublað og fór á kaffihús með vinkonum mínum og einhvern veginn kom þessi hugmynd upp í einhverjum hálfkæringi að skella sér bara í lögfræði.“ Og var það ást við fyrstu sýn? „Nei, ekki beint. Að koma úr Árnagarði í sal tvö í Háskólabíói með þrjú hundruð manns fannst mér ekki spennandi. En ég ákvað að láta mig hafa það og hætta bara ef ég félli í almennu lögfræðinni. Ég náði henni svo og þá varð maður að halda áfram og þá breyttist sýn mín á fagið. Ég sá að þetta hentaði mér vel og hef aldrei séð eftir því að hafa haldið mig við lögfræðina.“Missti fyrsta barnið Kolbrún útskrifaðist haustið 2005, þá háólétt af sínu fyrsta barni. Barnið sem var stúlka fæddist í janúar 2006 en lifði aðeins í tólf tíma. „Þetta var erfið fæðing og hún varð fyrir miklum súrefnisskorti í fæðingunni. Hún var endurlífguð en það var of seint. Við náðum samt að skíra hana Rósu í höfuðið á mömmu áður en hún dó.“ Það er greinilegt að það er Kolbrúnu erfitt að tala um þessa reynslu og hún segir þetta hafa verið hræðilega erfiðan tíma. „Maður varð að endurraða öllum púslunum og við maðurinn minn, Haukur Agnarsson, tókum okkur bæði góðan tíma í að jafna okkur. Ég var náttúrulega nýútskrifuð og ekki komin með vinnu þannig að ég frestaði því bara að leita mér að starfi og byrjaði ekki að vinna fyrr en í maí. Við höfðum lengi reynt að eignast barn og þetta var mjög mikið áfall og það tók bara þennan tíma að jafna sig bæði andlega og líkamlega.“ Í maí 2007 eignaðist Kolbrún annað barn sitt, stúlku sem skírð var Sigurrós, þá beið annað áfall. „Hún var með hjartagalla sem greindist þegar hún var sólarhringsgömul og fór í aðgerð samdægurs. Ég viðurkenni alveg að þetta var mikið áfall en aðgerðin gekk eins og í sögu og hún þurfti ekki að vera á vökudeildinni nema í tólf daga og er hin hraustasta í dag.“Fréttablaðið/ValliEnn eitt áfallið Tveimur árum síðar fæddist þriðja barnið, sonurinn Vilhjálmur, sem greindist með CP-fötlun. „Hann er hreyfihamlaður og spastískur, en ofsalega duglegur strákur, gengur í göngugrind og við erum að vona að hann geti kannski sleppt henni inni við með tíð og tíma. CP verður til vegna tímabundins skorts á súrefnisflæði til heilans á meðgöngu eða í fæðingu og það er misjafnt eftir börnum hvernig fötlunin lýsir sér. Hjá honum er þetta aðallega bundið við fæturna og miðju líkamans en það er enginn greindarskortur og hann á örugglega eftir að komast langt á sjarmanum.“Þannig að þetta var eitt áfallið í viðbót? „Já, auðvitað, en það er öðruvísi áfall að eignast barn sem er fatlað. Sem foreldri vill maður auðvitað að börnin manns séu heilbrigð og eigi eftir að lifa alveg fullkomnu lífi og það er erfiðast að sætta sig við að hann muni aldrei geta gert vissa hluti. En auðvitað skilur maður fljótlega að þetta er algjörlega röng hugsun, það þýðir ekkert að eyða lífinu í það að grenja yfir því sem hann getur ekki, miklu heldur að fókusera á það sem hann getur sem er alveg ótrúlega margt. Það eru í rauninni bara manns eigin fordómar eða þekkingarleysi sem valda því að maður hugsar svona. Ég ætla að ala hann þannig upp að hann hugsi um það sem hann geti en ekki hvað hann geti ekki. Hann er líka alveg frábær, jákvæður með fjörugt ímyndarafl og það mun fleyta honum mjög langt.“Deit í crossfit Hvernig gengur að púsla þessu öllu saman? Þú ert í mjög krefjandi starfi með fatlað barn, ertu ekki alveg örmagna? „Nei, nei, nei. Ég og maðurinn minn eigum góða að, tengdamóðir mín er ekkja og vinnur ekki úti og hefur reynst okkur algjörlega ómetanleg. Foreldrar mínir hjálpa okkur líka mikið, þótt þau séu bæði útivinnandi. Síðan skiptumst við maðurinn minn á um að sjá um heimilið en við reynum alltaf bæði að koma heim í kvöldmat og svæfum börnin og förum svo bara að vinna aftur þegar þau eru sofnuð. Ég er ekkert að bera á móti því að maður er oft mjög þreyttur en við hjónin byrjuðum saman í crossfit fyrir tveimur árum og það hefur hjálpað mjög mikið. Það er svo nauðsynlegt að gefa sér tíma fyrir sjálfan sig og sinna einhverju áhugamáli. Ég finn hvað crossfit-ið gerir mér gott, þar fær maður bæði útrás og svo styrkir það líkamann. Það er mjög líkamlega erfitt að eiga fatlað barn sem maður þarf að bera mjög mikið og ég held ég væri alveg farin í bakinu ef ég væri ekki að æfa. Þetta er líka það besta sem við höfum gert fyrir okkur sem par. Einu sinni í viku fáum við barnapíu og förum þá saman á æfingu, það er okkar „date night“.“ Ofan á allt annað er Kolbrún að kenna í lagadeild H.Í., meðal annars alþjóðlegan refsirétt. „Það er mitt áhugasvið innan lögfræðinnar og stundum hugsa ég að það gæti verið gaman að fara í framhaldsnám og fá að stunda rannsóknir á þessu sviði. Það kemur bara í ljós. Maður er enn þá ungur og allar leiðir opnar.“
Mest lesið Hótað og ógnað eftir að hafa aðstoðað lögreglu Innlent Hefði sagt nei: Sumarfrí bæjarfulltrúa opnaði fyrir endurskipulag á Nónhæð Innlent Hitinn víða yfir 50 stig og vatnsforðinn að þorna upp Erlent Brú skóf þakið af tveggja hæða rútu Erlent Lögreglan hugsi yfir Skildi Íslands: Eitt lögbrot verði ekki réttlætt með öðru Innlent Ekki hægt að draga ályktanir um hver varð manninum „líklegast“ að bana Innlent Laugavegurinn að „deyja úr velgengni“ Innlent Loftgæði mun betri á höfuðborgarsvæðinu Innlent Segjast komnir með nóg og ætla að gæta að framtíð Íslands Innlent Eldur í verslunarhúsnæði á Laugavegi Innlent Fleiri fréttir Tveir af þremur ánægðir með beitingu „kjarnorkuákvæðisins“ Alvarlega slösuð bankakona lagði VÍS eftir langa og stranga baráttu Lærði skriðsund á YouTube og syndir Ermarsund á morgun Sjálfsagt að taka málið fyrir: „Leysist ekkert sjálfkrafa við að ganga inn í Evrópusambandið“ Lögreglan hugsi yfir Skildi Íslands: Eitt lögbrot verði ekki réttlætt með öðru Eldur í verslunarhúsnæði á Laugavegi Play tekur dýfu í skugga afkomuviðvörunar og Njáll Trausti vill funda Hótað og ógnað eftir að hafa aðstoðað lögreglu Laugavegurinn að „deyja úr velgengni“ Loftgæði mun betri á höfuðborgarsvæðinu Njáll Trausti vill fund hið fyrsta í atvinnuveganefnd Hefði sagt nei: Sumarfrí bæjarfulltrúa opnaði fyrir endurskipulag á Nónhæð Með vesen í miðborginni og á bráðamóttöku og síðar handtekinn vegna þjófnaðar Virknin bundin við einn gíg: Gasmengunar gæti orðið vart á Suðurlandi Ekki hægt að draga ályktanir um hver varð manninum „líklegast“ að bana Hvalreki í Vogum Gosmóðan gæti setið sem fastast fram á fimmtudag: „Menn verða að taka þetta alvarlega“ Hefur áhyggjur af málflutningi „taugaveiklaðrar“ stjórnarandstöðu Lokuð inni með lokað fyrir glugga í þrjá daga Fundurinn vonbrigði: „Þetta leikrit er hafið“ Búin að vera lokuð inni í þrjá daga vegna gosmóðunnar Vopnað rán og skartgripaþjófnaður í Reykjavík Einfaldlega nýnastistar sem þýði meira ofbeldi og átök Maðurinn sem lýst var eftir fundinn Fordæma Hamas og segja áform um „mannúðarborg“ óviðunandi Stofna grunnskóla fyrir einhverf börn í Garðabæ Loftgæði versnandi á gosstöðvunum Segjast komnir með nóg og ætla að gæta að framtíð Íslands Sex spænskar orrustuþotur á leið til landsins Hafa tapað tvö hundruð milljónum króna vegna fjársvika Sjá meira