Innlent

Almenningur reki verslun á Hvolsvelli

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Verslunin Kjarval er í gamla Kaupfélagshúsinu sem Rangárþing eystra á við þjóðveginn sem liggur í gegn um Hvolsvöll.
Fréttablaðið/Vilhelm
Verslunin Kjarval er í gamla Kaupfélagshúsinu sem Rangárþing eystra á við þjóðveginn sem liggur í gegn um Hvolsvöll. Fréttablaðið/Vilhelm Fréttablaðið/Vilhelm
„Við viljum berjast til síðasta blóðdropa,“ segir Elvar Eyvindsson, kúabóndi og fulltrúi Sjálfstæðisflokks í sveitarstjórn Rangárþings eystra sem hyggst ræða stofnun almennningshlutafélags um rekstur dagvöruverslunar á íbúafundi.

Rangæingar hafa lengi verið ósáttir við verðlag í versluninni Kjarval sem Kaupás rekur á Hvolsvelli eins og á mörgum öðrum stöðum á Suðurlandi. Þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni hefur engin lágvöruverðskeðja fengist til að opna verslun á staðnum þótt heimamenn sjálfir telji grundvöll til þess.

Tillaga Elvars og Kristínar Þórðardóttur um íbúafundinn var samþykkt samhljóða í sveitarstjórninni. Þar á „láta reyna á hvort samtakahugur íbúanna er nægilegur til að menn sameinist um stofnun og rekstur slíks fyrirtækis,“ eins og segir í tillögunni.

„Ef það er ekki lágvöruverðsverslun þá getur hver sem er rekið þarna svipaða búð og er í dag. Og það væri alveg eins gott að heimamenn gerðu það,“ segir Elvar.

Elvar Eyvindsson, kúabóndi og sveitarstjórnarmaður í Rangárþingi eystra.
Rangárþing ytra á gamla Kaupfélagshúsið þar sem Kjarval er. Leigunni hefur verið sagt upp frá áramótum en verslunin hefur forleigurétt. „Það er ekki auðvelt en kannski vill fólk hafa það tómt og bjarga sér í öðru húsnæði á meðan við erum að losna frá þessum forleigurétti,“ segir Elvar um þá stöðu.

Þá bætir Elvar við að hann telji landsbyggðina að vissu leyti ofurselda verslunarkeðjum sem bjóði ekki sérlega gott verð.

„Það sem verður eftir hjá okkur eru láglaunastörfin en öll yfirstjórnin er annars staðar og hagnaðurinn fer annað líka,“ segir Elvar sem kveður heimamenn engar áhyggjur hafa af því að verslun leggist af á Hvolsvelli. Yfir þrjú hundruð þúsund ferðamenn fari um bæinn á ári.

„Auðvitað vilja verslunareigendur mjólka það án þess að við njótum en við viljum láta reyna á það til hins ítrasta hvort ekki sé hægt að koma því í betra horf,“ segir Elvar. „Við erum sannfærð um að það er hægt að vera með skikkanlegri verð. Ef þeir geta það ekki þá viljum við bjóða einhverjum öðrum það. Og ef enginn annar getur þetta þá getum við alveg eins gert þetta sjálf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×