Innlent

Merkilegar mannlífsmyndir finnast í Hafnarfirði

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Talið er að þetta sé mynd af Flygenringsystrum. Þær bjuggu í samnefndu húsi og voru nágrannar Ólafs V. Davíðssonar sem talinn er hafa tekið myndina einhvern tíma á árunum 1910 til 1915.
Talið er að þetta sé mynd af Flygenringsystrum. Þær bjuggu í samnefndu húsi og voru nágrannar Ólafs V. Davíðssonar sem talinn er hafa tekið myndina einhvern tíma á árunum 1910 til 1915.
„Myndirnar gefa nýtt sjónarhorn á hafnfirskt mannlíf fyrir einni öld. Þetta er alveg þrælmerkilegur fundur,“ segir Björn Pétursson, bæjarminjavörður Hafnarfjarðar.

Þessa dagana er byggðasafnið að undirbúa hátíðahöld um næstu helgi í tilefni þess að 250 ár eru liðin frá fæðingu Bjarna Sívertsen, „föður Hafnarfjarðar“. Af því tilefni er verið að taka Sívertsenhús í gegn.

Eitt af þeim verkefnum sem ákveðið var að ráðast í var að laga raflagnir í húsinu. Taka þurfti upp gólfborð á efri hæð hússins til að koma nýjum lögnum fyrir. Á mánudag fundust merkilegir gripir faldir undir gólffjölunum. Annars vegar var um barnaskó að ræða og hins vegar veski með 134 filmum í.

Margar af þeim myndum, sem komu í ljós þegar filmurnar sem fundust í Sívertsenhúsi voru skannaðar, eru af fólki við dagleg störf í Hafnarfirði fyrir einni öld. Þær eru flestar teknar í nágrenni við Sívertsenhúsið.
„Við skiljum ekki hvernig veskið með öllum þessum filmum gat endað undir gólffjölunum. Þetta hlýtur að hafa verið góður felustaður á sínum tíma,“ segir Björn. 

Filmurnar eru taldar rétt rúmlega aldargamlar. Myndirnar sem þær geyma eru flestar teknar í Hafnarfirði á árunum 1910 til 1915. Einstaka er þó úr Reykjavík og frá Danmörku. Margar þeirra sýna fólk við dagleg störf. „Þarna eru myndir af konum að elda og strauja og verkamönnum við störf sín. Myndirnar eru flestar mjög skýrar og góðar,“ segir Björn. 

Þótt safnamönnum hafi ekki gefist langur tími til að skoða filmurnar og skanna þær telja þeir líklegast að þær séu teknar af Ólafi V. Davíðssyni en hann bjó í Sívertsenhúsi á þessum árum ásamt konu sinni, listmálaranum Hönnu Davíðsson. Hún málaði meðal annars myndir á skírnarfontinn og predikunarstólinn í Fríkirkjunni í Hafnarfirði. 

Ólafur var verkstjóri hjá Bookles-bræðrum um tíma en rak svo um árabil eigin fiskverkun í bænum. Hann vann sér það meðal annars til frægðar að vinna fyrstu Íslandsglímuna 1906. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×