Innlent

Börn hlaupa gegn barnadauða

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Krakkar hlaupa til að vekja athygli á barnadauða í fyrra í Laugardalshöll en þá var Ísland í fyrsta skipti með.
Krakkar hlaupa til að vekja athygli á barnadauða í fyrra í Laugardalshöll en þá var Ísland í fyrsta skipti með.
Á hverjum degi deyja 18 þúsund börn fyrir fimm ára afmælið sitt af orsökum sem hægt er að koma í veg fyrir.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Save the children. Árið 2000 var sett þúsaldarmarkmið að draga úr barnadauða um tvo þriðjunga fyrir árið 2015. Ágætur árangur hefur náðst á síðustu þrettán árum en árið 1990 létust 12,6 milljónir barna samanborið við 6,6 milljónir barna árið 2012.

„Í dag vitum við að með því að vinna saman getum við náð mun betri árangri. Öll börn eiga rétt til lífs,” segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Á morgun munu fimmtíu þúsund börn víðs vegar um heiminn, í 67 löndum, hlaupa maraþon í boðhlaupsformi til að vekja athygli á baráttunni gegn barnadauða í heiminum.

Barnaheill – Save the Children stendur fyrir maraþoninu á Íslandi og munu tæplega 250 íslensk börn taka þátt í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×