Viðskipti erlent

Gjaldþroti Bandaríkjanna frestað þangað til í febrúar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Þingmenn jafnt sem starfsfólk þingsins hefur varla getað gefið sér tíma til að matast undanfarið en sá vandi hefur verið leystur með ýmsum hætti.
Þingmenn jafnt sem starfsfólk þingsins hefur varla getað gefið sér tíma til að matast undanfarið en sá vandi hefur verið leystur með ýmsum hætti. nordicphotos/AFP
Leiðtogar demókrata og repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings hafa náð samkomulagi í harðvítugri fjárlagadeilu sem nærri var búin að gera ríkissjóð Bandaríkjanna gjaldþrota.

Samkomulagið felst í því að ríkið fær heimild til fjármögnunar til 15. janúar og þar með er tryggt að ekki verður greiðslufall á afborgunum ríkisskulda fyrr en í fyrsta lagi 7. febrúar.

Þetta er því aðeins bráðabirgðalausn.

Báðar þingdeildir eiga enn eftir að greiða atkvæði um samkomulagið og er talið að nægilega margir repúblikanar hyggist samþykkja það í fulltrúadeild til að hægt verði að afhenda Barack Obama lögin til undirritunar í tæka tíð áður en ríkissjóður yrði gjaldþrota, sem myndi annars gerast í kvöld. Þá rennur nefnilega út frestur til að hækka skuldaþak Bandaríkjanna, sem hefði verið nauðsynlegt til að ríkissjóður gæti greitt af skuldunum.

Öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz, repúblikani frá Texas, reyndi að svara fjölmiðlum þegar fyrstu fréttir af samkomulaginu voru teknar að berast.Mynd/AP
Ekki er hróflað við heilbrigðislöggjöf Obama, sem repúblikanar höfðu gert kröfur um að yrði afnumin eða í það minnsta frestað. Þó var samþykkt að bæta ákvæði við heilbrigðislöggjöfina um að kanna þurfi sérstaklega hvort þiggjendur bóta muni í raun þurfa á fé úr ríkissjóði að halda.

Obama Bandaríkjaforseti hefur fagnað samkomulaginu og segist treysta því að geta undirritað lögin fljótlega.

Það voru demókratinn Harry Reid, leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni, og repúblikaninn Mitch McConnell, leiðtogi minnihlutans, sem kynntu samkomulagið í gær eftir langar og strangar samningaviðræður.

„Nú er tími til sátta,“ sagði Reid. Strax er þó komið í ljós að enn er mikill ágreiningur innan Repúblikanaflokksins um málið.

Búast má við því að sams konar deilur upphefjist á ný þegar þessi stutti viðbótarfrestur rennur út snemma á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×