Viðskipti innlent

Þriðjungur vinnuaflsins á atvinnuleysisskrá frá hruni

Svavar Hávarðsson skrifar
Staðan á vinnumarkaði er sögð mjög viðkvæm og óvíst að árangur sem náðst hefur síðustu ár við að vinna á móti atvinnuleysi sé varanlegur. Vinnumarkaðsaðgerðir séu í eðli sínu tímabundin verkefni.
Staðan á vinnumarkaði er sögð mjög viðkvæm og óvíst að árangur sem náðst hefur síðustu ár við að vinna á móti atvinnuleysi sé varanlegur. Vinnumarkaðsaðgerðir séu í eðli sínu tímabundin verkefni. Fréttablaðið/Vilhelm
Fjöldi skráninga á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar frá ársbyrjun 2008 til dagsins í dag eru um 62 þúsund talsins. Útgreiddar atvinnuleysisbætur á sama tímabili losa 120 milljarða króna, en tugir milljarða hafa runnið til sértækra aðgerða til að styðja við atvinnulausa.

Þetta má lesa úr gögnum Vinnumálastofnunar. Einnig að á árinu 2009 komu tæplega 34 þúsund manns við sögu hjá stofnuninni, sem er það mesta sem sést hefur á einu ári.

Hér skal hafa hugfast að hér eru allir taldir án tillits til þess í hversu langan tíma viðkomandi var á skrá og hverjar aðstæður viðkomandi voru.

Meðal aðgerða stjórnvalda til að sporna við atvinnuleysi var til dæmis upptaka hlutabóta sem heimilaðar voru með lagabreytingu fyrir áramótin 2008. Úrræðið mæltist vel fyrir og nýttist um 13% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá eftir áramótin 2009 þegar atvinnuleysið var hægt og bítandi að ná hæstu hæðum.

Runólfur Ágústsson, stjórnarformaður Vinnumálastofnunar, segir fjöldann benda til sveigjanlegs vinnumarkaðar, í fyrsta lagi. Hins vegar að hátt í tuttugu þúsund manns hafi nýtt sér lengri vinnumarkaðsúrræði; niðurgreidd störf og lengri námssamninga. „Úrræðin hafa virkað mjög vel og tappað af kerfinu, ef svo má segja.

Fáir sem hafa farið inn í slík verkefni hafa komið til baka á bætur þegar niðurgreiðslu líkur,“ segir Runólfur og bendir á að úrræðin hafi ekki síst nýst ungu fólki. „Okkur hefur tekist að milda mjög áhrif kreppunnar. En þetta er ein skýrasta mynd kreppunnar. Sem hlutfall af vinnumarkaði eru þetta alveg ótrúlega margir.“

Runólfur segir að staðan á vinnumarkaði sé mjög viðkvæm og árangur síðustu ára ekki endilega varanlegan. Vinnumarkaðsaðgerðirnar, hverju nafni sem þær nefnast, séu í eðli sínu skammtímaaðgerðir sem snúast um að troða marvaðann í kreppu.

„Það er engin framtíð í því að niðurgreiða störf með almannafé. Þetta má ekki standa lengi því það er óhollt fyrir atvinnulífið að venjast á það að geta fengið hluta sinna starfa greiddan með almannafé. Allt ræðst núna af því að hagvöxtur aukist á fljótt og vel. Ef það kemur ekki til fjárfesting og atvinnulífið fer ekki af stað þá er hætt við að atvinnuleysið geti aukist mjög hratt aftur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×