Innlent

Bara komið að endimörkum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Unaðsfegurð Íslands kemur stundum út á mér tárum. Ég get bara ekki hugsað mér að búa neins staðar annars staðar,“ segir Harpa. "Ekki í bili,“ segir Björn.
Unaðsfegurð Íslands kemur stundum út á mér tárum. Ég get bara ekki hugsað mér að búa neins staðar annars staðar,“ segir Harpa. "Ekki í bili,“ segir Björn. Fréttablaðið/Arnþór
Það á vel við að hitta hjónin Björn Zoëga, lækni og fráfarandi forstjóra Landspítalans, og Hörpu Árnadóttur myndlistarkonu í Hörpu – nafnsins vegna. Þau koma þangað hvort úr sinni áttinni. Hann úr kunningjaheimsókn í Kópavogi, hún af vinnustofu í Bygggörðum á Seltjarnarnesi. Þau hafa fylgst að gegnum lífið í tæp þrjátíu ár, eða frá því þau voru bæði í Menntaskólanum í Reykjavík

„Ég kynntist henni á síðustu vikunum sem ég var í skólanum, þá átti hún einn vetur eftir, því hún er ári yngri,“ segir Björn. „Við höfum þroskast saman og lært á lífið en öll okkar búskaparár hef ég unnið mikið.“ „Já, loksins er komið að því að ég þarf ekki að panta viðtalstíma,“ segir hún hlæjandi og vísar þar til þess að Björn er án atvinnu þessa stundina. Bætir svo við alvarlegri: „En þrátt fyrir að Bjössi hafi haft mikið að gera hefur hann sinnt heimilinu vel og verið til staðar fyrir börnin okkar.“

Björn segir þau hjón bæði ganga í hvaða störf sem er á heimilinu. Harpa upplýsir að hann eldi oftar en hún ef hann sé heima. „Mér finnst það afslappandi,“ segir hann. „Ég segi honum sögur á meðan og fæ að leggja á borðið. Það þykja mér góð skipti,“ segir hún og hlær.

Þeir hristu hausinn

Innt eftir upprunanum svarar Björn strax: „Harpa kemur allsstaðar að.“ „Ekki alveg,“ leiðréttir hún brosandi. „Föðurfólkið mitt er úr Vestur-Skaftafellssýslu og móðurfólkið frá Bíldudal. Svo er ég alin upp á Snæfellsnesi en er svo ljónheppin að hafa dvalið langdvölum á Bæ á Höfðaströnd í Skagafirði og finnst ég komin heim þegar ég kem þangað. En Björn er Reykvíkingur.“

Þau hjón bjuggu í Gautaborg í rúm níu ár á tímabilinu frá 1993 til loka 2002, Harpa í listnámi og Björn í sérnámi í hryggjarskurðlækningum á Sahlgernska sjúkrahúsinu. Hann lauk þar doktorsprófi 1998 og vann með náminu allan tímann. Var svo kominn í stjórnun undir lokin.

„Yfirmenn mínir spurðu hvort ég vildi starfa við háskólahluta sjúkrahússins eða koma að stjórn þess. „Get ég ekki gert hvorutveggja?“ spurði ég en þeir hristu hausinn. Svo varð þrýstingur á að ég tæki að mér stjórnunarhluta á spítalanum og var sendur í allskonar nám og tekinn stig af stigi, þannig að þegar ég hætti hafði ég verið að stjórna einni af stærstu bæklunarskurðdeildum í Svíþjóð með fimm legudeildum og ýmsu öðru,“ lýsir hann.

Björn segir þau hafa flutt heim frá Svíþjóð til að vera nær fólkinu sínu, þá hafi fjórða barnið verið á leiðinni og það fimmta hafi bæst við tveimur árum síðar. „Félagslega netið er öðru vísi þegar fjölskyldan er til staðar, þó vinirnir séu góðir,“ segir hann og bætir við að þau séu enn svo heppin að njóta aðstoðar foreldra hans nánast á hverjum degi.

„Já, það má ekki gleyma því,“ segir Harpa. „Foreldrar mínir hjálpuðu okkur líka á meðan þeirra naut við en faðir minn lést fyrir átta árum úr lungnakrabba og móðir mín einu og hálfu ári síðar úr því sama. Þeirra er sárt saknað. En mér og börnunum fannst erfitt að flytja heim til Íslands. Ég hafði fengið tveggja ára listmannalaun í Svíþjóð, starfsumhverfi mitt þar var mjög gott og mér hafði gengið vel frá upphafi. Einnig var söknuður eftir góðum vinum okkar allra.“

Innan fjárlaga þrjú ár í röð

Björn hefur verið forstjóri Landspítalans samfleytt í fjögur ár og hafði áður verið það í átta mánuði árið 2008. Á þeim tíma þurfti að hagræða grimmt í rekstrinum vegna fjárskorts, eins og alþjóð veit. Nú hefur hann sagt upp störfum. „Við sortéruðum. Við höfðum ekki pening, hann var látinn í annað í þjóðfélaginu,“ segir hann og svipur hans lýsir vonbrgiðum.

„Ég tel að við höfum staðið okkur vel. Spítalinn var innan fjárlaga þrjú ár í röð. Ég held það sé einn annar stór spítali á öllum Norðurlöndunum sem hangir nálægt því á sama tíma og þar hefur kreppan þó ekki verið jafn djúp og hér. Þetta er miklu meira en að segja það. Landspítalinn var sjaldnast innan fjárlaga heldur í góðærinu.

En okkur hafði verið gefin von um að geta farið í uppbyggingu eftir þessar þrengingar og ég var byrjaður að undirbúa hana. Nú liggja fjárlögin fyrir og enn er haldið áfram að höggva í sama knérunn, þrátt fyrir öll mín varnaðarorð. Því var bara komið að endimörkum þess sem hægt var að fá út úr þeirri stjórnunaraðferð sem ég hafði beitt og gat staðið fyrir sem persóna og leiðtogi.“

Harpa tekur við: „Ég hef á tilfinningunni að stjórnvöld hafi trúað því að hann yrði áfram þessi Caterpillar-jarðýta sem hann hefur verið, alveg sama upp á hvað væri boðið.“

En Björn var ekki bara að stjórna spítalanum, hann var líka bæklunarskurðlæknir þar, með hryggjaraðgerðir sem sérgrein. Gerði hann það til að halda sér í þjálfun?

„Já, og líka til að vita hvernig hlutirnir gengju fyrir sig á gólfinu og fá tengingu við starfsfólkið og spítalann á mismunandi stöðum. Það hafði ákveðna kosti en ég væri að ljúga ef ég segði að það hafi ekki verið erfitt. Verst var samviskubitið yfir að geta ekki verið á tveimur stöðum í einu en það eru margir á spítalanum sem gerðu mér þetta mögulegt. Í venjulegum vikum vann ég hálfan til einn dag á skurðstofu og hálfan dag á göngudeild. Svo bættust við helgar og kvöld þegar eitthvað kom upp á. Það var samt í hófi.“

Þú hefur ekki verið mikið heima að horfa á sjónvarp, spaugar blaðamaður.

„Nei, ég er lélegur í því og frúin líka, enda margt annað skemmtilegra. Við eigum til dæmis fimm börn til að blanda geði við og það verður ekki mikill tími afgangs. Þau eru á aldrinum átta ára til tuttugu og þriggja, tvær stelpur og þrír strákar. Stór hópur og duglegur að bjarga sér.“



„Já, og hjálpast að,“ bætir Harpa við. „Börnin eru lánið okkar, þeim fylgir húmor, dínamík og gleði. Heimilislífið snýst mikið um þau og þeirra áhugamál, ballett, fimleika, drengjakór og aðra tónlist. Þau eru öll í tónlistarnámi og sumar helgar förum við foreldrarnir á eina tónleikana eftir aðra þar sem þau koma fram. Svo keppir önnur dóttirin í fimleikum og hin er með sínar ballettsýningar.“

Reyndu að éta mannorðið

Skyldu börnin öll búa heima? „Já, og tengdadóttir og ein þýsk stúlka sem ætlar að vera hjá okkur og hjálpa okkur um tíma. En kötturinn dó í fyrra,“ segir Harpa.

Tvö yngstu börnin, átta og tíu ára, deila herbergi ennþá en nú kveðst Harpa hafa fundið hús sem henti lífi fjölskyldunnar betur, hún geti þar meira að segja verið með vinnustofu heima. „Húsið er í næst, næstu götu svo börnin þurfa ekki að skipta um skóla. Við getum bara farið með dótið okkar í pokum þangað.“ „Já, á að láta mann bera það?“ grípur Björn á lofti. „Það væri bara ókeypis líkamsrækt,“ bendir hún á.

Þau eru þá ekki að fara af landi brott. „Nei, það eru engin plön um það,“ tekur Björn fram og er í framhaldinu minntur á stöðuna sem hann var búinn að fá úti í Svíþjóð fyrir nokkrum misserum en hætti við að taka af því Guðbjartur Hannesson fékk hann til að sinna áfram störfum á Landspítalanum.

„Ég var næstum búinn að ráða mig úti, átti bara eftir að skrifa undir,“ rifjar Björn upp. „Guðbjartur vissi að það stóð til og á síðustu stundu ákvað hann að gera samkomulag um að ég yrði hér áfram á þeim forsendum að ákveðnir hlutir yrðu gerðir fyrir spítalann. Inn í þetta blandaðist síðan launaumræða sem var algert smáatriði í heildarmyndinni og ekki það sem ég var að leita að. Eftirleikurinn varð mjög pólitískur.“

Spurður hvort andrúmsloftið á spítalanum hafi ekki spillst mikið vegna þessa máls, svarar Björn. „Eflaust hjá sumum. Ég fann það aldrei. En margir nýttu þessa kauphækkun, sem ekkert varð af og málið losaði um ákveðna óþreyju sem var innan spítalans sem tengdist langvarandi niðurskurði og áhrifum hans á laun.“

Harpa kveðst hafa tekið umræðuna um málið á netinu mjög nærri sér. „Mér sárnuðu mörg orð sem fólk lét falla um Björn og hans persónu. Ég hef alltaf verið stolt af því hvernig hann hefur staðið sig í starfi og líka heima sem fjölskyldufaðir. Ég vissi að það hefði ekkert breyst, hann væri enn sami maðurinn en allt í einu var eins og kæmu hungraðir úlfar fram sem reyndu að éta mannorð hans upp til agna.“

„Það verður bara oft svo persónulegt þegar fólk fer að viðra skoðanir sínar á netinu hér á Íslandi. Þetta hafði lítil áhrif á mig en varð mjög pólitískt. Hvort sem það varð stéttarfélagspólitík eða fólk að reyna að nýta sér málið til að koma höggi á velferðarráðherrann og á stjórnanda fjölmennasta fyrirtæki landsins. Auðvitað var þetta skrítinn tími. Eftir á að hyggja hefðum við aldrei átt að blanda launamálum inn í þennan pakka. Þar lágu mistökin.“

En finnst honum, eftir á að hyggja, mistök að drífa sig ekki út og láta fortölur Guðbjarts lönd og leið?

„Nei, ég hugsaði aldrei svoleiðis. Maður hefur ákveðið val, tekur ákvarðanir og verður að standa við þær.“ Spurður hvort honum standi þessi staða í Svíþjóð ekki til boða lengur svarar hann. „Nei. Ég segi ekki að maður fái einu sinni á ævinni svona tilboð en það gerist ekki oft.“

Keppnisskapið kom sér vel 

Björn hefur alltaf verið áhugamaður um íþróttir, æfði handbolta, fótbolta og körfubolta með Val sem strákur og mætir enn á flesta fótboltaleiki Vals, enda hefur hann verið liðslæknir þar þangað til síðastliðið vor að hann hóf að þjálfa annan í það embætti. Hann spilaði yfir 250 leiki með meistaraflokki Vals í körfubolta og var fyrirliði síðustu árin með liðinu.

„Þetta var skemmtilegt tímabil, fyrsta árið í meistaraflokki unnum við þrefalt, urðum Reykjavíkur- Íslands- og bikarmeistarar. En um leið og ég byrjaði að vinna sem læknir þá hætti ég að spila því ég var að vinna þriðja hvern sólarhring, fyrir utan dagvinnuna. En ég hætti ekkert að vera Valsari og mér finnst gaman að fara á leiki,“ segir hann.

Spurður hvort reynsla hans sem fyrirliða í íþróttunum hafi komið honum vel í stjórnun spítalans svarar hann: „Já, ég held það. Keppnisskapið hefur komið sér vel. Í stjórn spítalans er mjög samhentur hópur og oft þegar við vorum að ræða málin þá notaði ég íþróttataktíkina: „Við ætlum ekki að tapa þessu, við ætlum að halda áfram.““

En hefur honum þá ekki þótt sárt að tapa góðum starfskröftum af spítalanum sem kannski nást ekki þangað aftur?

„Jú, jú. Auðvitað höfum við misst góða einstaklinga frá okkur, það fer ekki milli mála en lykilfólkið er hér enn að megninu til og við höfum fengið til okkar margt gott fólk. Heildartalan í stéttum lækna og hjúkrunarfræðinga er enn sú sama og fyrr, því við ákváðum að reyna að halda uppi grunnþjónustunni, næst sjúklingunum, og fækka fólkinu í kring um hátt í 20% prósent.

Mér finnst sárast að við vorum látin fækka um 350 stöðugildi sem voru næstum 600 einstaklingar en svo kemur í ljós að aðrar ríkisstofnanir hirtu þessi stöðugildi og lokasumman varð 200 fleiri ríkisstarfsmenn. Það var einungis innan heilbrigðiskerfisins og þá sérstaklega Landspítalans sem var fækkað. Mér finnst það ótrúleg forgangsröðun.“

Snöggur að ákveða sig

Hvað við tekur núna hjá Birni er óljóst, að hans sögn. „Ég hef stöðugt, að minnsta kosti síðustu tvö árin, verið spurður hvort ég hefði ekki áhuga á hinu og þessu. Það jókst mjög mikið eftir þessa leiðindaumræðu á spítalanum fyrir ári síðan, sérstaklega frá einkafyrirtækjum, þar sem menn sögðust vilja bjarga mér frá þessari pólitík. Það eru allskonar hlutir sem mér hafa staðið til boða, ekki bara í heilbrigðisþjónustu heldur líka í stjórnunarstöðum. Ég ætla að skoða hvað er í spilunum og gefa mér svona tvo daga í það!“

„Hann hefur alltaf verið snöggur að ákveða sig,“ stingur Harpa að. „Það er líka það sem ég hef orðið að gera, bæði sem læknir og í þeirri stöðu sem ég hef verið í sem stjórnandi spítalans,“ bendir hann á. „Þar hefur ekki dugað nein ákvarðanafælni.“

Listakonan Harpa er spurð hvort hún sé dugleg að draga Björn á sýningar. „Já, og það vill bara svo vel til að hann hefur áhuga á myndlist,“ segir hún brosandi. „Hann fer oft til útlanda vegna starfs síns, kíkir þá iðulega á söfn og kemur heim með sýningarskrár eða bækur sem hann gerir svo heimaunna úttekt á. Ég get ekki sagt að ég sé jafn áhugasöm um það sem tengist djúpstæðri rannsóknarvinnu í læknisfræði. En við höfum líka gaman af því að fara út í sveit og vera úti í náttúrunni sem er svo heillandi. Unaðsfegurð Íslands kemur stundum út á mér tárum. Ég get bara ekki hugsað mér að búa neins staðar annars staðar.“

„Ekki í bili,“ segir Björn og brosir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×