Lífið

Bjóða til kaffisamsætis

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Viktor og Bjarki vilja viðhalda samtalinu milli lífsins og listarinnar, meðal annars með því að nýta það sem vex í nágrenninu til matargerðar. Þeir bjóða til haustfagnaðar á morgun þar sem gestir fá að bragða á uppskerunni.
Viktor og Bjarki vilja viðhalda samtalinu milli lífsins og listarinnar, meðal annars með því að nýta það sem vex í nágrenninu til matargerðar. Þeir bjóða til haustfagnaðar á morgun þar sem gestir fá að bragða á uppskerunni. Fréttablaðið/GVA
Góðgresi efnir til haustfagnaðar á Loft hosteli á morgun. Þar verður boðið upp á afurðir unnar úr íslenskum jurtum. Viktor Pétur Hannesson er annar þeirra sem standa á bak við Góðgresi. Hann segir slagorðið „listin fyrir lystina“ lýsa starfseminni vel.

„Góðgresi er samstarf mitt og vinar míns Bjarka Þórs Sólmundssonar og við köllum þetta listrænt matvinnsluverkefni,“ segir Viktor Pétur Hannesson myndlistarmaður beðinn að útskýra hvað felist í nafninu Góðgresi. „Við erum að nýta jurtir í íslenskri náttúru sem kannski hafa ekki verið mikið notaðar til matargerðar áður. Allt frá njóla og hvönn yfir í birki, kerfil og bláklukku, svo eitthvað sé nefnt. Hugsunin er að fólk líti í kringum sig og nýti það sem vex í nágrenninu til matargerðar.“



Þeir Viktor og Bjarki eru báðir myndlistarmenntaðir og kynntust einmitt í náminu við LHÍ. „Bjarki var reyndar búinn að læra kokkinn áður en hann fór í Listaháskólann og hefur mikið verið að vinna við matargerð í sinni myndlist. Við höfum verið að þróa þessa hugmynd og ákváðum að tengja þetta verkefni hinu stöðuga samtali á milli listarinnar og lífsins.“ Lystarinnar með ypsiloni kannski? „Já, jafnvel. Slagorðið gæti þá verið „listin fyrir lystina“,“ segir Viktor og skellir upp úr.



Þeir félagar höfðu bækistöð á Stöðvarfirði í sumar þar sem þeir söfnuðu jurtum og þróuðu uppskriftir. Hvers vegna varð Stöðvarfjörður fyrir valinu? „Ég er alinn upp fyrir austan og við kærastan mín eigum hús þar,“ útskýrir Viktor. „Þar er líka mikil menningarleg uppbygging núna. Það er verið að breyta frystihúsinu í sköpunarmiðstöð og við höfum tekið þátt í því. Það þróaðist síðan þannig að við skipulögðum hátíðina Pólar í sumar og hún leiddist út í nokkurs konar matarhátíð hjá okkur. Við fengum gefins fullt af mat og tíndum jurtir uppi í brekkunni, grilluðum góðgætið í holu og buðum upp á svaka matarveislu fyrir 200 manns.“



Viktor og Bjarki héldu líka reglulega markað með vörum frá Góðgresi á Stöðvarfirði. „Þar buðum við upp á vörurnar sem við erum að þróa gegn frjálsum framlögum, svona til að kynna framleiðslu okkar og koma þessu öllu í gang. Við vildum sjá viðbrögðin áður en við færum að setja vörurnar í reglulega framleiðslu.“



Gestum í kaffisamsætinu á morgun býðst að bragða á ýmsum vörum Góðgresis, eins og sírópi með íslenskum jurtum, krækiberjasaft og krækiberjahlaupi sem unnið er úr hratinu af berjunum „eins og amma gerði“. Líki gestum það sem þeir smakka er hægt að festa kaup á vörunum gegn vægu gjaldi, að sögn Viktors. Samsætið hefst klukkan 16 og stendur eitthvað fram eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.