Handbolti

Kári Kristján gæti verið á leiðinni í málaferli við Wetzlar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kári Kristján Kristjánsson hefur verið án félagsliðs síðan í mars síðastliðnum, þegar hann lék með íslenska landsliðinu gegn Slóveníu þann 3. apríl. Leikurinn var lykilleikur í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik sem fram fer í Danmörku í janúar á næsta ári en Ísland vann leikinn 29-28.

Leikmaðurinn var rekinn frá þýska liðinu Wetzlar eftir leikinn en forráðamenn félagsins vildu meina að Kári hafi brotið reglur með því að taka þátt í leiknum.

Kári Kristján gekkst undir aðgerð í febrúar þar sem góðkynja æxli var fjarlægt úr baki hans. Síðan þá hefur hann ekkert spilað með Wetzlar. Leikmaðurinn kærði félagið í kjölfar brottrekstursins en að hans mati hafði hann fengið leyfi hjá læknum Wetzlar að spila.

Fyrir leikinn hafði Kári samið við danska liðið Bjerringbro/Silkeborg.

„Ég heyrði í lögfræðingi mínum síðast í dag og þá var ekki komin niðurstaða í málið,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson í samtali við Fréttablaðið í gær.

„Við erum í viðræðum við félagið um að semja um starfslok, en síðasti útborgunardagurinn minn var 15. mars síðastliðinn. Það er auðvitað best fyrir alla að semja utan dómsstóla, en það hefur ekkert þokast í þeim málum.“

Það stefnir því í málaferli hjá línumanninum.

„Ef forráðamenn Wetzlar kasta fram einhverju tilboði þá verður það bara skoðað, en ef ekkert gerist þá fer málið fyrir þýska dómsstóla um miðjan október.“

Fannar Friðgeirsson, fyrrum leikmaður Wetzlar, lenti einnig illa í forráðamönnum félagsins þegar þeir sviku munnlegan samning sem leikmaðurinn hafði gert við félagið. Fannar fékk því að vita í apríl að hann væri án félagsliðs og myndi ekki fá áframhaldandi samning, þvert á móti því sem honum hafði verið lofað.

„Ég hef ekki kosið að tjá mig nákvæmlega um einstaka persónur innan félagsins en þetta mál með Fannar [Friðgeirsson] er vatn á mína myllu varðandi hvernig félagið er rekið. Þetta lítur ekki smekklega út fyrir mitt fyrrverandi félag og virkilega sorglegt hvernig var staðið að öllu varðandi Fannar.“

Kári Kristján undirbýr sig fyrir átökin í dönsku úrvalsdeildinni

„Ég kom hingað til Vestmannaeyja í byrjun maí og hef verið í endurhæfingu sem og í handbolta með mínum mönnum í ÍBV. Fyrsta æfingin með Bjerringbro/Silkeborg er 16. júlí og ég verð klár fyrir þau átök.“

Leikmaðurinn flytur til Danmörkur í byrjun júlí.

„Það leggst rosalega vel í mig að flytjast þangað. Ef ég á ekki eftir að finna mig í Danmörku þá þýðir það bara eitt, ég er leiðinlegur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×