Viðskipti innlent

Sveifla milli ára er 398 milljarðar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Slitaferli föllnu bankanna veldur miklum sveiflum í tölum Seðlabanka Íslands um fjárfestingu innan og utan landsteinanna.
Slitaferli föllnu bankanna veldur miklum sveiflum í tölum Seðlabanka Íslands um fjárfestingu innan og utan landsteinanna. Samsett mynd

Markverður samdráttur í nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands um erlenda fjárfestingu innan landsteinanna og innlend fjárfestingu í útlöndum.

Umsvif vegna slita á þrotabúum föllnu bankanna gera þó að verkum að torvelt getur verið að draga út frá tölunum víðtækar ályktanir um stöðu fjárfestingar.

Tölur Seðlabankans um erlenda fjárfestingu ná yfir eignir og fjárfestingu þar sem eignarhald í fyrirtækjum fer yfir 10 prósent, að sögn Lárusar Jóhannessonar á deild gagnasöfnunar og upplýsingavinnslu í Seðlabankanum.

Lárus bendir á að fjárfestingar í útlöndum í „útrásinni svokölluðu“ hafi í mörgum tilvikum lent í ranni slitastjórna föllnu bankanna íslensku, en bankarnir hafi gjarnan lánað út á veð í viðkomandi fyrirtækjum.

„Svo selja slitastjórnirnar,“ segir hann og við þá sölu myndist neikvæð stærð í tölum um beina fjárfestingu innlendra aðila erlendis. „Það er í rauninni verið að affjárfesta, losa eignir.“

Um leið sýna tölurnar að í beinni erlendri fjárfestingu hafi útlendingar fest 83,92 milljarða króna á Íslandi árið 2012, miðað við 128,42 milljarða árið áður.

Þarna geta þó einnig orðið nokkrar sveiflur milli ára, til dæmis vegna lánaviðskipta stórra fyrirtækja.

„En það er samt vitað leið að með fjárfestingarleið Seðlabankans er í einhverju mæli að koma inn fjármagn,“ segir Lárus.

Fjárfestar eða fyrirtæki koma þá inn í landið með svonefndar „aflandskrónur“ í skilgreind fjárfestingarverkefni og 15 prósenta gjaldeyrisálag að auki. „Í því er núna talsverður gangur.“

Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, tekur undir að erfitt sé að draga ályktanir af tölum Seðlabankans um beina fjárfestingu.

„En hins vegar er náttúrlega alveg rétt að erlend fjárfesting er eiginlega engin á Íslandi, þótt liggja þurfi yfir þessum tölum til þess að sjá það,“ segir hann.

Höftin séu þar ein skýring, en um leið megi horfa til þess að fjárfesting hafi dregist mikið saman.

„Þetta er því ekki séríslenskt að fjárfesting sé lítil, þótt höftin bæti sjálfsagt ekki úr hér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×