Viðskipti innlent

Óbreytt atvinnleysi innan OECD

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Efnahagsástand á Spáni er mjög báborið. Hér krefst fólk refsinga yfir stjórnendum Banco Santander bankans. Í landinu er meira en fjórðungur án atvinnu.
Efnahagsástand á Spáni er mjög báborið. Hér krefst fólk refsinga yfir stjórnendum Banco Santander bankans. Í landinu er meira en fjórðungur án atvinnu. Nordicphotos/AFP

Ísland er í hópi þeirra ríkja innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, þar sem atvinnuleysi er hvað minnst.

Í nýjum tölum OECD kemur fram að fyrstu þrjá mánuði ársins hafi atvinnuleysi hér verið 5,6 prósent, en á því tímabili eru ekki mörg lönd undir fimm prósenta atvinnuleysi.

Aðeins er þar um að ræða S-Kóreu með 3,3 prósent, Noreg með 3,6 prósent, Japan með 4,2 prósenta atvinnuleysi og Austurríki þar sem atvinnuleysi mældist 4,9 prósent.

Hér hefur atvinnuleysi farið minnkandi síðan þá og mældist í 4,9 prósent í apríl, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar.

Í nýjum tölum OECD kemur fram að atvinnuleysisstig innan landa stofnunarinnar hafi verið óbreytt milli apríl og mars, 8,0 prósent.

Í löndum evrunnar náði atvinnuleysi hins vegar nýju meti í apríl með 0,1 prósents hækkun milli mánað og fór í 12.2 prósent. Er það 1,3 prósentustigum yfir fyrra meti á miðjum tíunda áratug síðustu aldar.

Þá dró úr atvinnuleysi í Bandaríkjunum í apríl þar sem það fór í 7,5 prósent. Lækkunin nam 0,1 prósentustigi.

Sambærileg lækkun átti sér stað í S-Kóreu þar sem atvinnuleysi mældist 3,3 prósent og í Japan þar sem atvinnuleysi fór í 4,1 prósent.

„Nýrri tölur frá því í maí benda til þess að atvinnuleysi hafi aukist á ný í Bandaríkjunum um 0,1 próssentustig,“ segir í nýjustu umfjöllun OECD.

„Þróun atvinnuleysis innan OECD hefur verið mjög mismunandi frá upphafi fjármálakreppunnar,“ segir þar jafnframt.

Alls eru 48,5 milljónir manna sagðar hafa verið án atvinnu innan landa OECD í apríl á þessu ár, 200 þúsundum fleiri en í mars og 13,7 milljónum fleiri en í júlí 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×