Skoðun

Styttri, hraðari, breiðari

Úrsúla Jünemann skrifar
Fyrir alls ekki löngu skrifaði Andri Snær Magnason grein í Fréttablaðið um þennan umdeilda nýja veg til Álftaness í gegnum Gálgahraunið. Margir eru á móti þessum framkvæmdum og stofnuð voru samtök „Hraunavinir“ til verndar svæðinu, sem þykir afar sérstakt og með mikla sögu. Ekki er tekið til greina að stóru áformin á Álftanesi um mikla fjölgun íbúa gekk ekki eftir. Ekki heldur er skoðaður nægilega vel sá möguleiki að bæta gamla veginn þannig að öryggi vegfarenda sé tryggt. Hraðari og breiðari vegur skal það vera. Rökstuðningurinn um að friðlýsa og varðveita Gálgahraun einungis að hluta til er ekki nógu sannfærandi.

Niðurbútun á dýrmætum landsvæðum hefur slæm jaðaráhrif á það sem á að vernda og rýrir verðmæti svæðisins til muna.Furðulegt hvað ráðandi öfl í sveita- og bæjarfélögum eru yfirleitt tilkippileg þegar um ný og dýr umferðarmannvirki er að ræða. Það er eins og það að fá styttri og breiðari vegi til að komast aðeins hraðar sé mál málanna og ofar öllum öðrum málaflokkum.

Enn eitt mannvirkið

Í Mosfellsbænum er um svipað dæmi að ræða. Í Leirvogstungu var farið af stað með nýtt íbúahverfi, auðvitað með stórum og dýrum einbýlishúsum í anda 2007. Þetta hverfi er tengt með mislægum gatnamótum við Vesturlandsveginn þannig að þar er mjög greiðfær og góð leið út úr hverfinu. En ekki nóg með þetta: Nú skal ráðast í enn eitt kostnaðarsamt mannvirki og byggja svonefndan Tunguveg út úr Leirvogstunguhverfinu. Þessi vegur mun stytta leiðina í miðbæjarkjarnann aðeins, en mun þvera mjög dýrmætt náttúrusvæði. Þarna er Varmá sem er á náttúruminjaskrá, þarna er Kaldakvísl og Tungufoss sem nú nýlega var friðlýstur. Stutt er í friðlandið að Varmárósum og innst í Leiruvoginum, sem er einnig á náttúruminjaskrá, er mjög mikið fuglalíf og margar tegundir að finna sem Ísland ber ábyrgð á samkvæmt alþjóðasamningum.

Slæmt einkabílabrölt

Hvernig væri að veita íbúum í Leirvogstungu frekar aðra þjónustu í staðinn fyrir enn eitt umdeilt umferðarmannvirki? Sem dæmi má nefna hverfisskóla og betri almenningssamgöngur. Hversu mörg ár skyldi vera hægt að reka slíka þjónustu fyrir andvirði þess sem Tunguvegurinn og rekstur hans mun kosta?

Víða í Evrópu eru menn að skipuleggja íbúahverfi þannig að einkabílnum er gert erfitt fyrir og aðrir samgöngumöguleikar eru skoðaðir. Þannig eru enn fleiri og breiðari og hraðari vegir ásamt öllum nýju bílastæðunum stundum óþarfir. En við á Íslandi erum á mörgum sviðum nokkrum áratugum á eftir og kunnum ekki að plana til lengri tíma. Allt þetta einkabílabrölt er auðvitað slæmt og mun fyrr eða síðar enda í blindgötu.

Ég er að velta fyrir mér hvort verktakar hafi ekki of mikil áhrif á ákvarðanatöku í sveita- og bæjarfélögum. Ég vildi óska að mínir skattpeningar færu í eitthvað annað en ný og dýr umferðarmannvirki sem eru kannski ekki einu sinni nauðsynleg til langs tíma litið.




Skoðun

Sjá meira


×