Erlent

Stóru hægri og vinstri flokkarnir á Ítalíu saman í stjórn

Þorgils Jónsson skrifar
Enrico Letta hefur verið falið að mynda samsteypustjórn stóru flokkanna á Ítalíu. Þar hefur stjórnarkreppa ríkt í um tvo mánuði.
Enrico Letta hefur verið falið að mynda samsteypustjórn stóru flokkanna á Ítalíu. Þar hefur stjórnarkreppa ríkt í um tvo mánuði.
„Þetta er eini möguleikinn!“ sagði Giorgio Napolitano, forseti Ítalíu, þegar hann færði Enrico Letta umboð til þess að mynda ríkisstjórn og binda þannig enda á tveggja mánaða stjórnarkreppu og hefja vinnu við að koma Ítalíu á rétta leið.

Letta er varaformaður Lýðræðisflokksins, sem er vinstra megin við miðju á hinu pólitíska litrófi, en í umboði Napolitanos felst að Letta myndi samsteypustjórn með hægriflokki Silvios Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra. Vinstri menn hafa meirihluta í neðri deild þingsins, en hægri menn í öldungadeildinni. Forsetinn hafði áður fengið vilyrði stóru flokkanna fyrir því að þeir styddu stjórn undir forustu Letta.

Forsætisráðherrann verðandi sagði að hann áttaði sig á þeirri ábyrgð sem honum væri falin.

Forgangsverkefnið sé að takast á við hina „gríðarlegu og óviðunandi“ erfiðleika sem Ítalía, sem er þriðja stærsta efnahagsveldi Evrópusambandsins, hefur glímt við síðustu misseri.

Enrico Letta, sem fengið hefur umboð til að mynda samsteypustjórn stóru flokkanna á Ítalíu, ræddi við fjölmiðlamenn í Quirinale-forsetahöllinni á Ítalíu í gær. Nordicphotos/AFP
„Staðan er mjög erfið og fordæmislaus þar sem getur brugðið til beggja vona,“ sagði Letta og bætti við að næsta verkefni á forgangsröðinni væru pólitískar umbætur þar sem stjórnmálastéttin hefði glatað allri tiltrú almennings. Meðal annars hyggur hann á fækkun þingmanna og breytingar á kosningalöggjöfinni.

Ítalíu hefur verið stýrt af teknókratastjórn Marios Monti frá haustinu 2011 þegar Berlusconi hrökklaðist frá völdum. Monti innleiddi margar nauðsynlegar en afar óvinsælar aðgerðir þar sem skorið var niður í útgjöldum hins opinbera og skattar og gjöld hækkuð. Hann hlaut ekki brautargengi í kosningunum, þar sem andúð almennings á stjórnmálastéttinni kom berlega í ljós og framboð grínistans Beppes Grillo hlaut um fimmtung atkvæða.

Grillo lýsti yfir mikilli óánægju með útnefningu Letta, sem hann sagði skýrt dæmi um samtryggingu gömlu flokkanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×