Erlent

Jákvæð teikn á lofti með færri dauðadómum í fyrra

Þorgils Jónsson skrifar
Mótmælandi heldur á lofti veggspjaldi þar sem krafist er afnámi dauðarefsingar í Hvíta Rússlandi. Setumótmæli fóru fram fyrir helgi í sendiráði landsins í Moskvu. Mynd/AP
Mótmælandi heldur á lofti veggspjaldi þar sem krafist er afnámi dauðarefsingar í Hvíta Rússlandi. Setumótmæli fóru fram fyrir helgi í sendiráði landsins í Moskvu. Mynd/AP
Þrátt fyrir að heildarfjöldi dauðarefsinga á heimsvísu sé lítt breyttur og fjöldi ríkja sem beiti dauðarefsingum sé sá sami, má greina jákvæða þróun í þessum málaflokki milli áranna 2011 og 2012. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International.

Alls er vitað til þess að 682 einstaklingar hafi verið teknir af lífi í 21 ríki í fyrra, sem er tveimur meira en árið áður. Það sem skekkir þá mynd er að nokkur ríki sem hafa ekki tekið fólk af lífi um hríð, meðal annars Japan, Indland og Pakistan, framkvæmdu aftökur í fyrra.

Það sem helst er til vitnis um jákvæða þróun í þessum málum er að nokkuð færri dauðadómar voru kveðnir upp í fyrra en árið áður, 1.722 samanborið við 1.923, og í færri ríkjum en áður, úr 63 í 58. Samkvæmt staðfestum tölum biðu þó enn 23.386 einstaklingar aftöku eftir dauðadóm í árslok 2012.

Þá afnam Lettland dauðarefsingar úr lögum og verður þar með 97. ríkið til að gera slíkt, en alls hafa 140 ríki afnumið dauðarefsingar eða hætt að beita þeim. Hvíta-Rússland er eina Evrópuríkið þar sem dauðarefsingar tíðkast enn.

Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir staðfestar tölur um aftökur í Kína gerir Amnesty fastlega ráð fyrir því að þar í landi skipti aftökur hundruðum árlega. Annað sætið á þessum lista skipar Íran með 314 aftökur hið minnsta, Írak er í þriðja sæti með 129 aftökur, sem er tvöföldun frá fyrra ári, og Sádi-Arabía er í fjórða sæti með 79 aftökur.

Bandaríkin eru í fimmta sæti með 43 aftökur og eina ríkið á vesturhveli þar sem slíkt tíðkast. Þetta er sami fjöldi og var árið áður en aðeins níu ríki Bandaríkjanna tóku fólk af lífi í fyrra, samanborið við þrettán ríki árið áður. Þá afnam Connecticut-ríki dauðarefsingar með lögum í fyrra og varð þar með sautjánda ríkið af fimmtíu til að gera slíkt.

Í skýrslu Amnesty segir að fátt bendi til þess að dauðarefsingar leiði til færri morða og annarra alvarlegra afbrota. Þeim sé víða beitt í pólitískum tilgangi meðal annars til skoðanakúgunar, jafnvel fyrir afbrot sem teljast ekki til alvarlegra glæpa, eða glæpa yfirhöfuð, samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×