Viðskipti innlent

Almennir kröfuhafar fá 225 milljarða

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Eignir þrotabús Landsbankans jukust um 170 milljarða króna í fyrra. Halldór H. Backman og Herdís Hallmarsdóttir sitja bæði í slitastjórn bankans.
Eignir þrotabús Landsbankans jukust um 170 milljarða króna í fyrra. Halldór H. Backman og Herdís Hallmarsdóttir sitja bæði í slitastjórn bankans.
Þrotabú Landsbankans reiknar með að geta greitt 225 milljarða króna til almennra kröfuhafa sinna. Alls nema eignir búsins 1.543 milljörðum króna og forgangskröfur, að mestu hin svokallaða Icesave-skuld, eru 1.318 milljarðar króna. Áætlaðar endurheimtur búsins jukust um 170 milljarða króna í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri samantekt á fjárhagsstöðu þrotabús Landsbankans, sem nú heitir LBI hf., en hún birt var fyrir helgi.

Búið hefur nú þegar greitt út 661 milljarð króna til forgangskröfuhafa í þremur greiðslum. Sú síðasta var innt af hendi í október 2012. Eftir á að greiða forgangskröfuhöfum, sem meðal annars eru tryggingasjóðir innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi, 657 milljarða króna, eða rétt tæpan helming.

Eignir þrotabúsins jukust samtals um 170 milljarða króna í fyrra. Stærstu breyturnar í þeirri þróun voru meðal annars salan á eignarhlut þess í bresku verslunarkeðjunni Iceland Foods, hækkun á kröfu á þrotabú Glitnis um 24 milljarða króna, sala á stórum hlut búsins í Eimskipi og salan á Aurum Holdings í Bretlandi.

Rekstrarkostnaður þrotabús Landsbankans lækkaði um átta prósent á milli ára og var 5,5 milljarðar króna í fyrra. Þar af voru greiddir 1,8 milljarðar króna í laun og fríðindi starfsmanna, sem var 14 prósentum lægra en árið áður. Vert er að taka fram að skilanefndir föllnu bankanna voru lagðar niður í lok árs 2011 og því var enginn kostnaður vegna þeirra í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×