Erlent

Rússar hreinsa til í Norður-Íshafinu

Kafbáturinn Kursk við höfn í Berentshafi, þar sem höfuðstöðvar norðurflota rússneska hersins eru. Þessi kafbátur fórst árið 2000 með 118 manna áhöfn.nordicphotos/AP
Kafbáturinn Kursk við höfn í Berentshafi, þar sem höfuðstöðvar norðurflota rússneska hersins eru. Þessi kafbátur fórst árið 2000 með 118 manna áhöfn.nordicphotos/AP
Rússar ætla á þessu ári að kanna hvort hægt sé að lyfta kjarnorkukafbátinum K-27 upp af hafsbotni þar sem hann hefur legið síðan 1982. Takist það verður reynt að fjarlægja úr honum geislavirkt úran sem er í kjarnaofni bátsins.

Frá þessu er skýrt á fréttasíðu breska útvarpsins BBC.

Meira en þrír áratugir eru síðan K-27 sökk austan við eyjuna Novaya Zemlya í Norður-Íshafinu, en þar í hafinu í grennd eru einnig nokkrir staðir sem Rússar notuðu á tímabili til þess að henda kjarnorkuúrgangi.

Nokkur vestræn ríki hafa undanfarinn áratug aðstoðað Rússa við að fjarlægja kjarnorkueldsneyti úr kafbátum, sem sökkt hafði verið í Norður-Íshafið við Kólaskaga, sem er nær Skandinavíu. Til þessa hefur hins vegar ekkert verið hreyft við kjarnorkuúrgangi austan við Novaya Zemlya, stórri eyju sem Rússar notuðu auk þess á sínum tíma til að gera tilraunir með kjarnorkusprengingar ofan jarðar.

Rússneska orkufyrirtækið Rosneft og bandaríska orkufyrirtækið Exxon Mobil eru að kanna möguleikana á vinnslu olíu og gass úr hafsbotninum í Kara-hafi, austur af Novaya Zemlya. Búast má við því að á næstu árum og áratugum aukist umsvif á þessum slóðum, ekki síst þegar greiðari umferð verður um Norður-Íshafið vegna hlýnunar jarðar og bráðnunar hafíss.

BBC hefur eftir Ingar Amundsen, sérfræðingi við norsku geislavarnarstofnunina, að Rússar séu nú loksins farnir að taka alvarlega þann vanda sem kjarnorkuúrgangur í hafinu skapar.

Kjarnorkukafbáturinn K-27 var tekinn í notkun árið 1962 en sex árum síðar varð bilun í honum með þeim afleiðingum að geislavirk efni láku úr öðrum kjarnaofni hans. Níu úr áhöfn hans létu lífið.

Báturinn var síðan formlega tekinn úr notkun árið 1979 og árið 1982 var honum sökkt niður á 33 metra dýpi skammt út af austurströnd Novaya Zemlya.

Fleiri rússneskir kjarnorkukafbátar liggja enn á hafsbotni í Barentshafi og Norður-Atlantshafi. Árið 2001 tókst þó að lyfta rússneska kjarnorkukafbátinum Kursk, sem fórst árið áður í Barentshafi með 118 manna áhöfn.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×