Innlent

Samningar styttir og friðurinn tryggður

Forsvarsmenn SA og ASÍ skrifuðu í gær undir samkomulag um að stytta kjarasamninga og hefja samráð um framtíðarsýn um kaupmátt og efnahagslegan stöðugleika. FRéttablaðið/Anton
Forsvarsmenn SA og ASÍ skrifuðu í gær undir samkomulag um að stytta kjarasamninga og hefja samráð um framtíðarsýn um kaupmátt og efnahagslegan stöðugleika. FRéttablaðið/Anton
Samtök atvinnulífsins (SA) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) munu þegar hefja vinnu að undirbúningi nýrra kjarasamninga með það fyrir augum að móta sameiginlega sýn á launamál og kaupmátt auk þess að tryggja vöxt og efnahagslegan stöðugleika.

Þetta er megininntakið í samkomulagi SA og ASÍ frá í gær. Samningunum er ekki sagt upp og umsamdar launahækkanir upp á 3,25% koma til framkvæmda um næstu mánaðamót. Gildistími samninganna er hins vegar styttur svo að þeir munu renna úr gildi í nóvember næstkomandi, tveimur mánuðum fyrr en til stóð, þegar þeir voru undirritaðir vorið 2011.

Samkomulagið kveður einnig á um að samtökin reyni að ná samstöðu um atvinnustefnu, sem verði lögð fyrir stjórnmálaflokkana í aðdraganda alþingiskosninga. Eftir kosningar verði svo unnin raunhæf aðgerðaáætlun til næstu ára.

Þá verði leitast við að ná samstöðu um aðferðir í gengis- og peningamálum, jöfnun lífeyrisréttinda og unnið gegn svartri atvinnustarfsemi og kennitöluflakki. Jafnframt munu samtökin beita sér fyrir aðgerðum til að lækka verðlag, til dæmis með „aðhaldi að verðhækkunum fyrirtækja og gjaldskrárhækkunum opinberra aðila“.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segist í samtali við Fréttablaðið vera ánægður með samkomulagið, í ljósi aðstæðna. Um það ríki breið sátt innan hreyfingarinnar.

„Það tryggir bæði að umsamdar kauphækkanir komi til framkvæmda, sem var ekki sjálfsagt, og að friður muni ríkja á vinnumarkaði fram á haustið.“

Gylfi segir að hefði samningum verið sagt upp að þessu sinni, hefðu viðræður getað orðið erfiðar viðfangs.

Spurður hvort hann sé bjartsýnn fyrir haustið játar Gylfi en kallar eftir breiðri samstöðu um framhaldið.

„Ég verð að vera bjartsýnn, en það tekst ekki nema að það verði sameiginlegt átak, og stjórnvöld verða að koma að borðinu á þeim nótum.“ thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×