Viðskipti innlent

Stöðutaka kostar sjóði tugi milljarða

Þórður Snær Júlíusson skrifar
"Þessari vegferð er nú lokið. Þetta hefur verið gríðarlega tímafrekt ferli sem loks kláraðist í lok síðustu viku,“ segir Arnar Sigurmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða, sem hefur leitt viðræðurnar fyrir hönd sjóðanna.fréttablaðið/GVA
"Þessari vegferð er nú lokið. Þetta hefur verið gríðarlega tímafrekt ferli sem loks kláraðist í lok síðustu viku,“ segir Arnar Sigurmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða, sem hefur leitt viðræðurnar fyrir hönd sjóðanna.fréttablaðið/GVA
Lífeyrissjóðir landsins gerðu upp gjaldmiðlasamninga sína við stóru bankana þrjá með yfir 70 milljarða króna tapi. Á móti áttu þeir skuldabréf á sömu banka sem nýttust til skuldajöfnunar á um helmingi þeirrar upphæðar. Tilkynnt var um síðasta samkomulagið, við Kaupþing, fyrir helgi en viðræðurnar hafa staðið yfir með hléum frá árslokum 2008. Með því er stærsta óvissuþættinum sem enn var til staðar í bókum sjóðanna vegna bankahrunsins eytt. Uppgjörið hefur verið samþykkt í stjórnum þeirra sjóða sem eiga aðild að samkomulaginu og gera upp við þrotabú bankanna í samræmi við það. Niðurstaðan mun ekki hafa áhrif á lífeyrisréttindi sjóðsfélaga, þar sem þegar hefur verið gert ráð fyrir tapinu.

Samkomulag við Kaupþing klárað

Tilkynnt var samkomulag við Kaupþing síðastliðinn föstudag. Áður höfðu lífeyrissjóðirnir samið við Landsbankann sumarið 2011 og flestir þeirra gengið frá samkomulagi við Glitni í apríl 2012.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna, annar stærsti sjóður landsins, er reyndar ekki aðili að samkomulaginu við Glitni eins og sagt er nánar frá hér til hliðar.

Arnar Sigurmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða, hefur leitt viðræður við föllnu bankana fyrir hönd sjóðanna í á fjórða ár. Hann segir stærsta útistandandi deilumáli sjóðanna vegna hrunsins nú vera lokið. „Þessari vegferð er nú lokið. Þetta er búið að vera gríðarlega tímafrekt ferli sem loks kláraðist í lok síðustu viku. Þetta var ótrúlega flókið og margir lögmenn eru búnir að gefa álit sitt á þessari deilu. En að endingu var þetta niðurstaða sem við gátum vel sætt okkur við."

Innihaldið trúnaðarmál

Innihald samkomulags sjóðanna við föllnu bankana er trúnaðarmál. Arnar staðfestir hins vegar að heildaráhrif þeirra séu nálægt því ef samningarnir hefðu allir verið gerðir upp á gengisvísitölunni 175, en lífeyrissjóðirnir hafa bókfært virði samninganna miðað við hana í uppgjörum sínum. „Í heild er þetta mjög nálægt því sem sjóðirnir hafa gert ráð fyrir í sínum uppgjörum. Þar hafa þeir gert ráð fyrir að gera þetta upp miðað við gengisvísitöluna 175, að hluta verði síðan skuldajafnað og að ákveðnir vextir hafi verið reiknaðir á uppgjörstímanum."

Spurður hvort það þýði að tap sjóðanna fyrir skuldajöfnun sé 73 til 74 milljarðar króna segir Arnar það vera rétt. Í skýrslu úttektarnefndar um starfsemi lífeyrissjóðanna á árunum fyrir hrun, sem birt var í febrúar 2012, kemur fram að hún áætli tap lífeyrissjóðanna vegna gjaldmiðlavarnarsamninga á 36,4 milljarða króna þegar búið var að taka tillit til skuldajöfnunar. Sú niðurstaða er mjög nálægt því sem samdist um, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.

Hefði getað orðið meira tap

Ef samningarnir hefðu verið gerðir upp í samræmi við ýtrustu kröfur þrotabúa gömlu bankanna hefði tapstaða sjóðanna getað orðið upp á 120 til 130 milljarða króna. Á móti hefði virði þeirra skuldabréfa sem hægt yrði að nota til skuldajöfnunar hækkað í um 50 milljarða króna. Því hefði hreint tap sjóðanna getað orðið 70 til 80 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×