Handbolti

Aron hræðist ekki aukna pressu og ábyrgð

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
klár í slaginn Aron verður í lykilhlutverki hjá íslenska liðinu á HM.fréttablaðið/vilhelm
klár í slaginn Aron verður í lykilhlutverki hjá íslenska liðinu á HM.fréttablaðið/vilhelm
Aron Pálmarsson verður í risastóru hlutverki með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu. Aron, sem nýverið var valinn Íþróttamaður ársins 2012, er ekki nema 22 ára gamall en hann vill sem minnst tala um aldur sinn.

„Ég hef verið að reyna að losna við „unga" stimpilinn undanfarin tvö ár og það er ekki hægt að skýla sér á bak við það endalaust. Það vantar marga lykilmenn í hópinn að þessu sinni og það er því meiri pressa á mér og meiri ábyrgð. Ég er ekkert að stressa mig á því – ég hlakka bara til að takast á við það. Mér finnst ég spila betur þannig.

Frá því að ég kom inn í landsliðið eftir ÓL 2008 þá hefur það verið þannig að liðið fer í alla leiki til þess að vinna. Það er miklu meira sjálfstraust til staðar hjá leikmönnum og það vita allir hvað er hægt að gera. Það er meðbyr hjá okkur, við erum lið sem margir vilja ekki mæta og við höfum nýtt okkur það."

Aron telur að þeir leikmenn sem hafa verið valdir í liðið á HM standi fyllilega undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar.

„Þeir sem eru í liðinu eru góðir í handbolta og þeir sem hafa komið nýlega inn í þetta lið eru allir frábærir handboltamenn. Það er undir þeim komið að sýna hvað í þeim býr á stóra sviðinu." Aron telur að Ísland eigi að komast í átta liða úrslit á HM.

„Við erum með það gott lið að það á að vera raunhæft að stefna á átta liða úrslitin og eftir það getur allt gerst. Okkar möguleikar gegn Rússum liggja í því að stöðva skytturnar þeirra og hraðaupphlaupin eru þeirra sterkasta vopn.

Ég hef ekki miklar áhyggjur af sóknarleiknum – vörnin þarf að vera í lagi og markvarslan. Þetta hefur allt saman heyrst áður og er fín uppskrift."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×