Handbolti

Ætla að standa mig vel

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Rafn er sífellt að bæta sig og fær stórt hlutverk á HM.fréttablaðið/vilhelm
Aron Rafn er sífellt að bæta sig og fær stórt hlutverk á HM.fréttablaðið/vilhelm
Hinn 23 ára gamli markvörður Hauka, Aron Rafn Eðvarðsson, var valinn fram yfir Hreiðar Levý Guðmundsson er lokahópur Íslands fyrir HM var tilkynntur í gær. Þetta verður í annað sinn sem Aron Rafn fer á stórmót en hann fékk aðeins að spreyta sig á EM í Serbíu fyrir ári. Aron Rafn stóð sig frábærlega í leiknum gegn Svíum á þriðjudag og sú frammistaða fleytti honum til Spánar.

„Ég er alveg í skýjunum. Annað væri nú skrýtið. Það verður gaman að fá að taka þátt frá upphafi núna," sagði markvörðurinn kátur.

Hann var undir mikilli pressu fyrir leikinn gegn Svíum enda var vitað að hann væri að spila fyrir HM-sætinu í þeim leik.

„Ég vissi það vel. Ef ég myndi standa mig vel í þeim leik var ég nokkuð viss um að ég fengi farseðilinn. Ég var samt ekkert að hugsa allt of mikið um það. Ég hugsaði meira um að vera fyrir boltanum."

Aron segist vera í góðu formi og er nýbúinn að jafna sig almennilega eftir að hafa fengið lungnabólgu. Hann var enn að glíma við afleiðingar hennar á milli jóla og nýárs og gat því ekki spilað með landsliðinu þá.

„Mér gekk illa að losna við öll einkenni en það er farið núna og ég virðist vera í fínu formi. Ég er kominn með fulla orku aftur og ekkert hægt að kvarta yfir því lengur. Ég tel mig vera kláran í að taka þátt í þessu móti og standa mig."

Landsliðsþjálfarinn, Aron Kristjánsson, vill ekki gefa upp hvor markvarðanna í hópnum sé númer eitt en það kæmi ekkert á óvart ef Aron Rafn myndi byrja í fyrsta leiknum gegn Rússum á laugardag enda verið að verja vel.

„Ég met mína stöðu þokkalega góða og helmingslíkur á að ég byrji. Hann segir það við okkur að betri markvörðurinn byrji og svo kemur í ljós hvað verður. Ég geri alveg eins ráð fyrir því að byrja leikinn. Ef svo verður þá er bara að standa sig. Ef ég byrja á bekknum verð ég klár í að koma sterkur inn af bekknum. Okkur Bjögga gengur vel að vinna saman og vonandi myndum við sterkt teymi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×