Lífið

Geir Ólafs fertugur: Aldrei hugsað um aldur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég er alinn upp við hljómsveitarbransann frá blautu barnsbeini og á honum mikið að þakka,“ segir Geir Ólafs.
"Ég er alinn upp við hljómsveitarbransann frá blautu barnsbeini og á honum mikið að þakka,“ segir Geir Ólafs. Myndir/Arnþór
„Ég ætla að halda smá veislu fyrir vini og vandamenn laugardaginn 17. ágúst og á von á nokkrum frábærum söngvurum þangað, svo sem Agli Ólafs, Gissuri Páli, Ragga Bjarna og Páli Rósinkrans,“ segir Geir Ólafsson söngvari spurður hvernig hann ætli að fagna fertugsafmælinu sem er í dag.

Býst hann við að taka lagið sjálfur? „Ég get auðvitað ekki sagt nei ef ég verð beðinn en ætla samt fyrst og fremst að njóta þess að hlusta á þá sem koma og gleðja mig á þessum degi,“ svarar hann.

Geir er hamingjusamur þessa dagana. Hann er ekki bara að halda dúndurafmælisboð heldur er hann líka nýtrúlofaður. Unnustan heitir Adriana og er frá Kólumbíu en starfar í banka á Spáni. Skyldi hún ætla að flytja til Íslands? „Nei, við erum í fjarbúð og fljúgum á milli en reynum að vera saman eins mikið og við getum. Þannig býst ég við að það verði enn um sinn.“



Geir er borinn og barnfæddur Reykvíkingur, næstyngstur sjö barna Ólafar Ragnhildar Ólafsdóttur og Ólafs Benediktssonar. „Ég er úr Breiðholtinu en tel mig samt ekki Breiðholtsvilling, né aðra þá sem ólust þar upp um leið og ég. Þeir sem ég þekki hafa staðið sig vel í lífinu og verið Breiðholtinu til sóma,“ tekur hann fram.

Lukkuleg Við erum í fjarbúð og fljúgum á milli,“ segir Geir um samband sitt og kærustunnar Adriönu.
Hann kveðst alltaf hafa lifað og hrærst í músík. „Faðir minn var trommuleikari í Sóló, Sextett Óla Ben og Lúdó og Stefáni þannig að ég er alinn upp við hljómsveitarbransann frá blautu barnsbeini og á honum mikið að þakka.“



En hvernig leggst það í Geir að vera að skríða yfir á fimmtugsaldurinn? „Ég tek nú bandarísku leiðina á þetta og segi „early forties“! En ef maður dregur andann og lifir og hugsar vel um líkamann þá skiptir engu máli hvað maður er gamall því heilsan er aðalatriðið í lífinu. Ég hef verið svo heppinn að umgangast fólk á öllum aldri og hef aldrei hugsað um aldur þess heldur frekar um hvernig því líður. Það er aðalatriðið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.