Erlent

Skaut bankaræningja til bana

Kristján Hjálmarsson skrifar
Sérsveit lögreglunnar skaut bankaræningjann til bana.
Sérsveit lögreglunnar skaut bankaræningjann til bana. Mynd/AP
Sérsveit lögreglunnar skaut í morgun bankaræningja til bana eftir að hann hafði drepið tvo gísla í smábænum St. Joseph í Louisiana.

Bankaræninginn, hinn tvítugi Fuaed Abdo Ahmed, skaut báða gíslana þegar lögreglan ruddist inn í bankann eftir tólf tíma umsátur. Lögreglan skaut hann því næst til bana.

„Hann var mjög æstur og ætlaði sér að drepa gíslana,“ er haft eftir talsmanni lögreglunnar.

Ahmed hafði tekið þrjá starfsmenn í gíslingu en sleppti einum þeirra fljótlega. Hann skaut síðan tvo af gíslunum þegar lögreglan ruddist inn. Annar gíslanna dó samstundis en hinn lést af sárum sínum á sjúkrahúsi.

Lögreglan telur að Ahmed, sem var ættaður frá Jemen, hafi ekki verið í neinum tengslum við hryðjuverkahópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×