Handbolti

Mikkel Hansen horfði Miami Heat í nótt - gat ekki sofnað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen.
Mikkel Hansen. Mynd/AFP
Mikkel Hansen, stórskytta danska landsliðsins í handbolta, gat ekki sofnað nærri því strax þegar að hann kom upp á hótel í gærkvöldi eftir 30-24 sigur Dana á Króötum í undanúrslitaleik HM í handbolta á Spáni.

Hansen sofnaði ekki fyrr en rúmlega þrjú og aðeins eftir að hann horfði á lið Miami Heat spila í NBA-deildinni í körfubolta. Miami vann Detroit Pistons örugglega alveg eins og Danir fóru létt með Króatana.

„Ég fór seint að sofa. Ég gat bara ekki sofnað sem var samt fínt því þá gat ég horft á smá körfubolta. Liðið mitt var að spila í nótt," sagði Mikkel við DR. Hann er að glíma við meiðsli en spilaði vel fyrir liðið á móti Króatíu og þá sérstaklega varnarlega.

„Liðið mitt er Miami Heat. Það er ennþá bara deildarkeppnin í gangi í NBA og langur vegur eftir að titlinum. Þeir unnu og spiluðu vel þannig að ég er ánægður," sagði Mikkel.

„Ég reyndi að fara sofa en það var bara ekki möguleiki. Leikurinn endaði ekki fyrr en 21.30 og við komumst ekki upp á hótel fyrr en klukkan hálf eitt. Þá áttum við erftir að borða eitthvað," sagði Mikkel en hann horfði á leikinn í tölvunni sinni í gegn NBA Leage Pass.

Danir mæta Spánverjum í úrslitaleik HM á morgun klukkan 16.15 en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×