Viðskipti innlent

Reykjavík Geothermal fær risaverkefni í Eþíópíu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Gufustrókur á Hellisheiði. Í Eþíópíu á að nýta íslenskt hugvit í tvær 500 megavatta jarðvarmavirkjanir.
Gufustrókur á Hellisheiði. Í Eþíópíu á að nýta íslenskt hugvit í tvær 500 megavatta jarðvarmavirkjanir. Fréttablaðið/Vilhelm
Ríkisstjórn Eþíópíu tilkynnti í dag um samkomulag við fyrirtækið Reykjavík Geothermal um að byggja og reka allt að 1.000 megavatta jarðvarmaorkuver í tveimur 500 megavatta áföngum. Áætluð fjárfesting verkefnisins er um 500 milljarðar íslenskra króna.

Reykjavík Geothermal er íslensk - bandarískt fyrirtæki á sviði jarðvarmanýtingar og hefur, samkvæmt tilkynningu félagsins, síðastliðin tvö ár unnið að orkusölusamningi við Landsvirkjun Eþíópíu (EEPCO) og ýmis þarlend ráðuneyti.

„Fyrsta 500 MW virkjunin verður reist á háhitasvæði Corbetti öskjunnar í Suður Eþíópíu. Corbetti er virk eldstöð með öskjumyndun svipaða og víða á Íslandi. Íslenskir og Eþíópískir jarðvísindamenn sem hafa rannsakað svæðið ítarlega telja Corbetti vera eitt besta jarðhitasvæði heims til framleiðslu raforku,“ segir í tilkynningunni.

Fyrstu 10 megavött raforkuvinnslunnar verða framleidd árið 2015 og 100 megavött ári síðar. Áætlað er að 500 megavatta jarðorkuver verði komið í fullan rekstur árið 2018.

Í sameiginlegri  fréttatilkynningu EEPCO og Reykjavík Geothermal segist Dr. Michael Debretsion, aðstoðarforsætisráðherra og stjórnarformaður EEPCO, mjög ánægjulegt að tilkynna „þetta sögulega samkomulag“ við Reykjavík Geothermal. 

„Þetta er mikilvægt skref fyrir EEPCO í átt að þeirri framtíðarsýn fyrirtækisins að verða leiðandi í orkuöflun og orkuútflutningi í Austur-Afríku,“ segir hann.

 „Við teljum Eþíópíu hafa yfir að ráða 10.000 megavöttum af óbeisluðum jarðvarma, sem veitir stöðugt grunnafl og fellur vel að yfir 50.000 megavöttum af virkjanlegu vatnsafli landsins.“

„Samningur okkar við EEPCO og ríkisstjórn Eþíópíu er gríðarlega mikilvægur. Reykjavik Geothermal verður fyrsti sjálfstæði orkuframleiðandinn í Eþíópíu og Corbetti verkefnið verður stærsta jarðvarmavirkjun Afríku,“ er jafnframt haft eftir Michael Philipp stjórnarformanni Reykjavík Geothermal.

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Reykjavik Geothermal.Fréttablaðið/Stefán
„Samningurinn um 1.000 megavött jarðhitaorku, fjárfesting upp á fjóra milljarða bandaríkjadala [innsk. um 487 milljarðar krónur] á átta til tíu ára tímabili, staðfestir tiltrú alþjóðlegra fjárfesta í vexti og stöðugleika efnahags Eþíópíu. Verkefnið sem er leitt af bandarískum einkafjárfestum hefur notið mikillar athygli þróunarstofnana sem taka þátt í verkefninu „Afl Afríku“ sem Obama Bandaríkjaforseti hefur haft forystu um.“

Þá er haft eftir Miheret Debebe, fortjóra EEPCO að Corbetti orkuverkefnið sé ný fyrirmynd að þróun stórra orkuverkefna í Afríku Verkefnið sameini umtalsverða sérþekkingu í raforkuvinnslu Eþíópíu við jarðvarmaþekkingu Íslands og fjármálaþekkingu í Bandaríkjunum. 

„Verkefnið mun setja ný viðmið fyrir stórverkefni fjármögnuð af einkaaðilum og mun hjálpa Eþíópíu að leysa úr læðingi mikla orkuvinnslumöguleika,“ er haft eftir Debebe.

Þá er haft eftir Guðmundi Þóroddssyni, forstjóra Reykjavík Geothermal að með Corbetti jarðorkuverkefninu verði Eþíópía leiðtogi í uppbyggingu jarðvarma í heiminum. 

„Eþíópía hefur nokkur af bestu háhitasvæðum heims. Corbetti jarðvarmavirkjunin verður ein sú hagkvæmasta og háþróaðasta í heiminum. Markmið okkar til langs tíma er að flytja íslenska jarðhitaþekkingu- og reynslu til Eþíópíu.“

Nejib Abba Biya, stjórnarformaður fyrirtækisins Valley Rift Geothermal, samstarfsaðila Reykjavík Geothermal í Eþíópíu, segir við hæfi að þetta „sögulega“ samkomulag fyrir Eþíópíu sé gert um ári eftir andlát hins framsýna leiðtoga og forsætisráðherra Eþíópíu, Meles Zenawi. 

„Sem forsætisráðherra var hann einn helsti talsmaður Afríku á alþjóðlegum ráðstefnum um loftslagsbreytingar og staðfastur talsmaður fyrir hreina og endurnýjanlega orku,“ er haft eftir honum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×