Viðskipti innlent

Sjö sagt upp hjá slitastjórn Glitnis

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Á þriðjudaginn hættu sjö starfsmenn. Fimm á Íslandi og tveir í London," segir Kristján Óskarsson hjá slitastjórn Glitnis.

„Verkefnum fer fækkandi eðli málsins samkvæmt eftir því sem líður á slitameðferðina. Starfsmenn okkar vita þetta og þetta er eðlilegur hluti af slitameðferð," segir Kristján. Hann staðfestir að að umræddir starfsmenn þurfi ekki að vinna út þriggja mánaða uppsagnarfrestinn.

Aðspurður hvort starfsmennirnir hafi unnið að einstöku verkefni sem nú sé lokið segir Kristján svo ekki vera.

„Reyndar ekki. Þetta er bara á öllum sviðum hjá okkur. Mörgum verkefnum er auðvitað lokið og þá færum við þau verkefni sem eftir eru yfir á færri hendur."

Steinunn Guðbjartsdóttir, hjá slitastjórn Glitnis, sagði í samtali við Vísi í byrjun febrúar að engar uppsagnir væru yfirvofandi. Eftir því sem verkefnum fækkaði hefði það auðvitað áhrif á fjölda starfsmanna. Frekari uppsagnir eru þó ekki framundan á næstunni að sögn Kristjáns.

„Ég á ekki von á því á næstunni. Þetta verður unnið þannig að ákveðnir hópar hverfa frá eftir því sem að verkefnum fækkar."

Aðspurður hvort farið sé að sjá fyrir endan á slitameðferðinni vísar Kristján í viðskiptaáætlun sem birt var í byrjun febrúar. Þar komi fram vísbendingar slitastjórnarinnar hvenær takist að breyta eignum í reiðufé.

„Við reiknum með að ljúka því árið 2016," segir Kristján en viðskiptaáætlunina má sjá hér.

Kristján segir árin 2011 og 2012 hafa verið mjög annasöm hvað varði að breyta eignum í reiðufé.

„Það er mjög mikið framundan á árunum 2013 og 2014. Svo reiknum við emð því að síðustu eignunum verði breytt í reiðufé árin 2015 og 2016. Svo er auðvitað ágreiningur um kröfuhliðina líka. Það eru þó góðar líkur á að það verði langt komið á þessum tíma."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×