Viðskipti innlent

Hagvöxtur á mann 0% á fyrsta ársfjórðungi

Á fyrsta fjórðungi ársins var 0,8% hagvöxtur. Hefur hagvöxtur ekki mælst minni síðan á þriðja fjórðungi 2010, þ.e. síðan hagkerfið fór að taka við sér eftir samdráttinn sem varð í kjölfar bankahrunsins 2008. Ef tekið er tillit til fólksfjölgunar sem var 0,8% á sama tímabili stóð verg landsframleiðsla (VLF) í stað að raungildi á milli ára, þ.e.a.s. hagvöxtur á mann var 0,0%.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að tölurnar undirstriki það sem fram hefur komið í nýlegum þjóðhagsspám, þ.e. að dregið hafi úr hagvexti og útlit er fyrir að hann verði hægur í ár

„Líkt og vísbendingar voru um var mikill samdráttur í fjárfestingu á fyrsta fjórðungi, eða sem nemur 19,9%. Er þetta þriðji fjórðungurinn í röð þar sem samdráttur mælist í fjárfestingu. Þessi þróun er mikið áhyggjuefni þar sem fjárfestingarstigið í hagkerfinu var nú þegar orðið mjög lágt, en fjárfesting er grundvöllur að hagvexti til lengri tíma litið. Var fjárfesting sem hlutfall af VLF einungis 12,6% á fyrsta fjórðungi þessa árs, og hefur þetta hlutfall ekki verið lægra síðan á fyrsta fjórðungi ársins 2011,“ segir í Morgunkorninu.

Þjóðarútgjöld drógust saman um 4%

„Í heild drógust þjóðarútgjöld saman um 4% á fyrsta fjórðungi, og er þetta annar ársfjórðungurinn í röð sem samdráttur á sér stað í innlendri eftirspurn. Er þetta samt mesti samdráttur í þjóðarútgjöldum sem mælst hefur síðan á fyrri hluta árs 2010, þ.e. á samdráttarskeiðinu eftir hrun.

Þessi mikli samdráttur í þjóðarútgjöldum endurspeglast í umtalsverðum samdrætti í innflutningi sem mældist 6,3% á fyrsta ársfjórðungi. Er það sérstaklega innflutningur fjárfestingavara sem er að dragast saman. Á móti þeim samdrætti var 2,3% vöxtur í útflutningi á fjórðungnum sem er fremur lítill vöxtur í samanburði við það sem mælst hefur að meðaltali hér á landi síðan hagkerfið fór að taka við sér árið 2010.“ Sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×