Skoðun

Opið bréf til innanríkisráðherra

Björn Guðmundsson skrifar
Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir.

21. október voru margir Íslendingar sem elska landið sitt teknir höndum af lögreglu undir þinni stjórn. Fólkinu var varpað í fangelsi og á yfir höfði sér sektir eða fangelsisvist fyrir þá glæpi sem það framdi, sem fólust í að reyna að vernda ómetanlega náttúru og sögustaði í Gálgahrauni.

8. maí á þessu ári helltu Þríhnúkar ehf. niður 600 lítrum af olíu á vatnsverndarsvæði Reykvíkinga. Reglur voru brotnar. Skv. rannsóknarskýrslu tókst að hreinsa upp 250 lítra af olíu, en 350 lítrar eru nú komnir niður í grunnvatnið á svæðinu og enda hugsanlega í vatnsbólum Reykvíkinga.

1 Hefur einhver verið handtekinn og sóttur til saka vegna olíuglæpsins?

2 Var fólkið í Gálgahrauni að fremja alvarlegri glæpi en þeir sem helltu niður olíunni?

3 Hafa Þríhnúkar ehf. misst starfsleyfi sitt við Þríhnúkagíg vegna olíuhneykslisins og verulegra landspjalla á svæðinu?

4 Ef svarið við spurningu 3 er neikvætt, hver er þá skýringin?

5 Hvort finnst þér mikilvægara að vernda vatnsbólin okkar og náttúruna umhverfis Þríhnúkagíg eða að þjóna gróðafíkn eigenda Þríhnúka ehf.?

6 Hvað þarf að hella mörgum lítrum af olíu niður á vatnsverndarsvæði Reykvíkinga til að það teljist glæpur sem kostar starfsleyfismissi, sektir eða fangavist?

Ég geri ráð fyrir að rými fáist á síðum þessa blaðs til að svara þessum spurningum skilmerkilega.




Skoðun

Sjá meira


×