Viðskipti innlent

Karolina Fund vekur alþjóðlega athygli

Ingi ásamt samstarfsmönnum sínum hjá Karolina Fund, þeim Arnari Sigurðssyni og Jónmundi Gíslasyni.
Ingi ásamt samstarfsmönnum sínum hjá Karolina Fund, þeim Arnari Sigurðssyni og Jónmundi Gíslasyni. Fréttablaðið/Vilhelm
„Á þeim tíma sem þessi hugmynd kviknaði var ekki til svona síða í heiminum. Ég er upphafsmaður síðunnar og fékk átta í lið með mér til að stofna hana. Við byrjuðum að hugsa um hvernig væri hægt að útfæra þessa hugmynd og fyrir ári síðan opnuðum við vefsíðuna,“ segir Ingi Rafn Sigurðsson sem stendur að baki fyrstu hópfjármögnunarsíðu Íslands, Karolina Fund, ásamt Jónmundi Gíslasyni, Sævari Ólafssyni, Arnari Sigurðssyni, Brynjólfi Einari Sigmarssyni, Lárusi Lúðvíkssyni, Þórarni Jóhannssyni, Irinu Domurath og Juliu Boira. Karolina Fund fagnar eins árs afmæli sínu um þessar mundir og er nóg í bígerð í framtíðinni.

„Síðan í dag er í raun einfölduð útgáfa af því sem við stefnum á að gera. Við viljum skapa samvinnugrundvöll þar sem fólk getur sett fram hugmyndir með einföldum hætti í eins konar hugmyndabanka. Segjum sem svo að einhvern langi til að búa til heimildarmynd. Þá getur hann auglýst eftir handritshöfundi, tökumanni og svo framvegis. Þá fá allir sem skráðir eru með viðeigandi hæfileika tilkynningu og þannig tengjum við saman aðila - fólk með hugmynd og fólk með hæfileika. Þetta er hægt að sjá að hluta til á kerfinu í dag en þennan hluta getur fólk unnið áður en það fer í fjármögnunarferlið.“

Karolina Fund státar af mjög hárri velgengniprósentu og segir Ingi ástæðuna tvíþætta.

„Þessa dagana hefur fjármögnun skapandi verkefna fengið byr undir báða vængi hjá almenningi, kannski út af því að það er verið að þrengja að skapandi greinum af hinu opinbera. Fyrir vikið er almenningur tilbúnari til að leggja eitthvað fram sjálfur. Hitt er að við veitum fólki persónulega þjónustu um hvernig á að leggja verkefni fram. Við greinum hve stór hópurinn er sem er líklegur til að fjármagna og hjálpum fólki við að búa til kynningaráætlun og jafnvel kynningarefni. Við göngum lengra en gengur og gerist í þessum bransa við að miðla þessari þekkingu,“ segir Ingi. Hann er ánægður með árið, enda hefur Karolina Fund vakið alþjóðlega athygli.

„Miðað við hvað undirtektirnar hafa verið góðar hugsa ég að ár tvö verði stærra, fleiri verkefni og að upphæðirnar fari hækkandi. Við höfum fengið mikla athygli víða erlendis frá og verið eftirsótt á ráðstefnur út um allan heim. Við höfum farið til Finnlands, Eistlands, Póllands og Þýskalands til að kynna fyrirtækið og höfum verið boðin á hátt í tíu ráðstefnur í viðbót. Á þessum ferðalögum höfum við myndað ofboðslega góð tengsl við erlenda aðila víðs vegar að.“ Fjármögnunin á Karolina Fund fer öll fram í Evrum.

„Við viljum þróast út í alþjóðlegt fyrirtæki og þetta er ekki síst hugsað til að auðvelda erlendum aðilum að taka þátt. Af þeim verkefnum sem hafa náð fjármögnun hefur tuttugu til þrjátíu prósent komið erlendis frá þannig að ég tel að þetta margborgi sig. Við erum ekki að lýsa frati á krónuna heldur bara að horfast í augu við það að erlendir aðilar eru tilbúnir til að fjárfesta. Við finnum ekki fyrir því að Íslendingar láti þetta stöðva sig,“ segir Ingi og býður alla velkomna í afmælisveislu Karolina Fund sem haldin verður á Kex Hostel í kvöld á milli klukkan 17 og 20.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×