Skoðun

„Viltu far?“

Olga Björt Þórðardóttir skrifar
Á tíunda áratug síðustu aldar bjó ég og starfaði í miðborginni og gat ekki hugsað mér að búa annars staðar. Mér fannst hvert hús hafa mikla og merkilega sögu og naut þess að ganga göturnar á enda.

Eina sumarnóttina gekk ég Austurstræti á heimleið eftir að hafa hitt vini á skemmtistað. Logn var úti og sólin tekin að rísa á ný og varpa fallegri birtu á húsin og mannfólkið sem enn sótti í selskap eftir lokun skemmtistaða klukkan þrjú.

Þegar ég nálgaðist Lækjargötuna heyrði ég bílflaut og einhver kallaði nafn mitt. Ég þekkti ekki bílinn en sá að í honum voru fjórir menn á mínum aldri. Ég gekk nær og sá að ég kannaðist við þá alla úr grunnskóla. „Hvert ertu að fara?“ sagði sá sem sat frammi í. Ég mundi að ég þekkti líka systur hans. „Heim til mín,“ sagði ég hikandi. „Eigum við ekki að skutla þér?“ Augnaráð hans var vinalegt.

Ég leit snöggvast í aftursætið og fannst augnaráð félaganna þar ekki eins vinaleg. Þeir glottu líka. Ég ákvað að afþakka boðið og gekk mína leið hröðum skrefum upp Bankastrætið. Þeir kölluðu á eftir mér hlæjandi: „Hei, kommon!“

Nýverið las ég í afbrotafræðibók sögu um átján ára stúlku sem stóð á bílastæði við lúgusjoppu í Bandaríkjunum. Hún heyrði bílflaut, nafn hennar var kallað og hún hvött til að koma að bílnum. Hún gerði það og sá að hún kannaðist vel við bílstjórann. Í aftursætinu sátu tveir ungir menn. Bílstjórinn bauð henni að setjast við hlið sér til að spjalla. Fljótlega eftir að hún settist inn var bílnum ekið af stað og sá sem hún kannaðist við sagði að hann væri að fara að finna vin. Eftir stuttan akstur spurði hann blákalt: „Viltu ríða?“ Félagarnir hlógu. Stúlkan neitaði og var orðin smeyk. Bílstjórinn ávarpaði þá félaga sína: „Eigum við?“ Þeir samþykktu – og nauðguðu henni síðan.

Halda mætti að vegna þess að nauðgun er alvarlegur og hræðilegur glæpur hljóti gerandinn að vera ókunnugur þolanda. Við vitum þó að raunin er sú að flest fórnarlömb þekkja gerandann. Meginástæða þess að flestar nauðganir eiga sér stað um helgar er vegna þess að þá eru meiri líkur á að gerandi og þolandi verði hvor á vegi annars yfirleitt. Þess vegna snýst það alltaf fyrst og fremst um einbeittan brotavilja geranda.

Ég mun aldrei vita hvað hefði getað gerst ef ég hefði þegið farið heim þarna um árið. Kannski vildu skólafélagarnir vel. Einhvern veginn hef ég ætíð verið fegin því að hafa ekki látið á það reyna. Samt á enginn á að þurfa að hugsa þannig. Aldrei.




Skoðun

Sjá meira


×