Skoðun

Ráðherrar, tré og skógur

Finnur Sveinbjörnsson skrifar
Næstu ár verða afdrifarík í sögu þjóðarinnar. Ekki aðeins vegna þess vanda sem gjaldeyrishöft, laskaður gjaldmiðill og takmarkaður aðgangur að erlendu fjármagni skapa. Ekki síður vegna þess að breyta þarf þjóðfélaginu á fjölmörgum sviðum.

Olíuvinnsla á Drekasvæði, raforkusala um sæstreng og tekjur af siglingum á norðurslóðum munu litlu sem engu skila fyrr en eftir mörg ár eða áratugi, jafnvel aldrei.

Alls er óvíst um frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar og þjónustu á næstu árum. Ekki er nóg að vilja og geta framleitt raforku, það þarf kaupendur og ásættanlegt verð.

Ferðaþjónusta, sjávarútvegur og ýmsar smærri atvinnugreinar munu án efa skila sínu. En meira þarf svo lífskjör verði áfram í fremstu röð. Það þarf grundvallarbreytingar víða í þjóðfélaginu, í atvinnulífinu, opinberri þjónustu og ekki síst hagstjórn.

Formaður fjárlaganefndar Alþingis fullyrti í útvarpsþætti að íslenskt samfélag væri eins og meðalstórt fyrirtæki í Bandaríkjunum og að tími væri kominn til að reka landið þannig. Þótt hér sé vissulega um gamalkunnugt og vanhugsað stef að ræða, þá beinir það kastljósinu í rétta átt. Í fyrirtæki væri við þessar aðstæður lögð höfuðáhersla á að bæta núverandi starfsemi, þ.e. gera hlutina betur, auka skilvirkni, velta við hverjum steini.

McKinsey-skýrslan í fyrra og samráðsvettvangur um aukna hagsæld eru góð skref í rétta átt. En til að skapa samstöðu um nauðsynlegar breytingar þarf styrka pólitíska forystu ásamt miklum tíma, orku og þrautseigju.

Nýju ráðherrarnir munu festast í daglegu amstri afgreiðsluverkefna, smámála og eilífra innlendra og erlendra funda nema þau séu þeim mun hæfileikaríkari stjórnendur. Trén munu byrgja þeim sýn og torvelda þeim að rækta skóginn. Því ríður á að forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sanni leiðtogahæfileika sína og finni leiðir til að tryggja að af aðkallandi breytingum verði. Takist það verður ríkisstjórnarinnar lengi minnst.




Skoðun

Sjá meira


×