Viðskipti innlent

VÍS er með flesta hluthafa

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, hringir kauphallarbjöllunni við upphaf viðskipta klukkan hálftíu í gærmorgun.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, hringir kauphallarbjöllunni við upphaf viðskipta klukkan hálftíu í gærmorgun. Fréttablaðið/Valli
Opnunarverð hlutabréfa Vátryggingafélags Íslands (VÍS), þegar þau voru tekin til viðskipta í Nasdaq OMX Kauphöll Íslands í gærmorgun, var 9,15 krónur á hlut, 15,1 prósenti yfir 7,95 króna útboðsgengi félagsins. Við lokun markaðar í gær hafði gengi bréfa félagsins svo hækkað enn, í 9,22 krónur á hlut, eða um 16 prósent frá útboði.

Heildarupphæð viðskipta með bréf VÍS á fyrsta degi í Kauphöllinni var 1.465 milljónir króna, en alls skiptu rúmlega 166 milljónir hluta um hendur í 194 viðskiptum.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði fyrir opnun markaðar í gær að fagnaðarefni væri að fá jafnglæsilegt félag á markað. Hann sagði skráningarferli félagsins allt hafa gengið afskaplega vel og kvað um leið ýmislegt markvert við skráningu VÍS í Kauphöllina.

„Það fyrsta sem ástæða er til að benda á er sá mikli fjöldi sem þátt tók í útboði félagsins og ber vott um mikinn áhuga á því,“ sagði Páll og benti á að núna væri ekkert annað félag sem skráð er í kauphöll með jafnmarga hluthafa og VÍS.

Boðin velkomin Páll Harðarson og Sigrún Ragna Ólafsdóttir handsala skráningu VÍS á markað. Fréttablaðið/Valli
Þá benti Páll á að útboð VÍS til skráningar í Kauphöllina væri með þeim stærstu sem fram hafi farið frá aldamótum. „Í samhengi hlutanna var þetta mjög stórt útboð og gekk afskaplega vel,“ sagði hann.

Um leið vakti Páll athygli á þeim tímamótum sem í því fælust að Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, væri nú í fyrsta konan um langt árabil sem stýrir skráðu félagi hér á landi. „Og ég er eindregið þeirrar skoðunar að meira jafnvægi í kynjahlutföllum stuðli að aukinni fagmennsku í íslensku atvinnulífi.“

Sigrún Ragna sagði skráninguna mikil tímamót fyrir félag eins og VÍS. „Útboðið gekk vel og við erum gríðarlega stolt af þessum mikla áhuga sem kom fram í útboðinu og því mikla trausti og trú sem fjárfestar hafa á framtíðahorfum og stöðu VÍS. Við gerum það sem í okkar valdi stendur til að standa undir því trausti,“ sagði hún eftir að bréf félagsins voru tekin til viðskipta í gær.

Arion banki hafði umsjón með skráningu VÍS í Kauphöllina og rekur viðskiptavakt með bréf félagsins, ásamt Landsbankanum.

Tvær tilkynningar um eignarhlut bárust Kauphöllinni í gær. Önnur var vegna eignarhlutar Hagamels ehf., félags Hallbjörns Karlssonar og Árna Haukssonar, upp á 9,9 prósent. Hin var vegna rúmlega 6,6 prósenta eignarhlutar Arion banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×