Viðskipti innlent

Starfar hjá stærsta banka í heimi

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Elísabet Guðrún Björnsdóttir
Elísabet Guðrún Björnsdóttir

Elísabet Guðrún Björnsdóttir var aðeins 25 ára gömul þegar hún fékk starf hjá JP Morgan Chase, sem er einn stærsti banki í heimi ef litið er til eigna.

Síðastliðin sex ár hafa verið einkar viðburðarík hjá Elísabetu en hún fluttist til Bandaríkjanna árið 2007 þar sem hún hóf meistaranám í fjármálaverkfræði í Cornell-Háskóla í New York. Ári seinna fékk hún sumarstarf hjá JP Morgan í New York og eftir útskrift var hún svo ráðin í fullt starf hjá bankanum. Árið 2010 fluttist hún til London þar sem hún byrjaði að starfa hjá bankanum þar í borg. 

„Ég vinn í deild sem er blanda af áhættustýringu og markaðsviðskiptum. Markmið deildarinnar er að lágmarka skuldaáhættu bankans eða þá áhættu sem hlýst af útlánum bankans og afleiðuviðskiptum. Þannig er deildin mín eins konar tryggingarfélag innan bankans, þar sem aðrar deildir bankans borga minni deild lítið tryggingargjald og í staðinn tryggjum við viðskipti þeirra,“ segir Elísabet áköf.

JP Morgan er einn af stærstu bönkum í heimi en þar vinna yfir 200 þúsund manns. Bankinn var jafnframt einna fyrstur til að halda uppi heilu sviði sem miðstýrir mótaðilaáhættu á einum stað og skyldar allar deildir innan bankans til þess að tryggja viðskipti sín með þeim hætti sem Elísabet vinnur að. „Á ensku heitir þetta fyrirkomulag Credit Valuation Adjustment og er sífellt að verða vinsælla hjá öðrum fjármálastofnunum, þá aðallega eftir hrunið.“

Hjálpar að vera Íslendingur

Aðspurð hvernig sé að vera Íslendingur í London eftir að breska stjórnin setti hryðjuverkalög á landið segir Elísabet að hún finni ekki mikið fyrir því. „Einstaka sinnum er skotið á mig og gert grín að þessu en annars hefur mér bara fundist ég ávallt græða á því að vera Íslendingur, bæði í Bandaríkjunum og hér í London.“

Elísabet segir að Bretum þyki Ísland mjög áhugavert land og fólk sé yfirleitt mjög forvitið að heyra um landið. Einnig telur hún að það hafi hjálpað sér töluvert að vera Íslendingur þegar hún fékk inngöngu inn í Cornell-háskóla í New York.

„Cornell hefur góða reynslu af íslenskum námsmönnum en einnig er skemmtilegt að segja frá því að skólinn er með stærsta safn íslenskra bókmennta í heiminum utan Íslands,“ segir Elísabet sem telur að innganga inn í Cornell hafi verið stærsta skrefið að framanum.

JP Morgan í London.nordicphotos/afp

Fékk starfið rétt eftir hrun

„Það var í raun mjög mikil heppni að ég fékk fullt starf hjá JP Morgan í London. Hrunið var þá nýskollið á og allt á öðrum endanum, ég var hins vegar að vinna í áhættustýringu sem er hugsanlega eitt af fáum sviðum sem ekki voru að draga saman seglin á þeim tíma,“ segir Elísabet og hlær. Einnig segir hún að Cornell hafi lagt mikla áherslu á að búa til góða ferilskrá og að koma nemendum sínum í góðar stöður, strax frá fyrsta degi.

Elísabet var í Verslunarskóla Íslands og útskrifaðist árið 2003. Eftir stúdentspróf ákvað hún að fara í byggingarverkfræði í Háskóla Íslands og kláraði það nám með stæl árið 2006.

„Ég fann það strax í Verzló að fjármál heilluðu mig en ákvað engu að síður að velja byggingarverkfræðina þar sem ég vildi fá góðan grunn í stærðfræði og öðrum raunvísindum.“ Um leið og hún heyrði af því að það var eitthvað til sem heitir fjármálaverkfræði ákvað hún að sækja um í Cornell, sem varð til þess að hún fékk draumastarfið. 

Eina konan í deildinni

Elísabet er eina konan í sinni deild í London, en segist þó finna fyrir ákveðnum meðbyr vegna þess að hún er kona og það ríki jákvæð mismunum í atvinnulífinu.

„Það er nefnilega algengt í fjármálageiranum hér úti að konur staðni í starfi, taki síður að sér krefjandi verkefni og sæki minna í stjórnunarstöður þegar líður á. Ég hef fundið fyrir því að stjórnendur meta það því mikils þegar kona er tilbúin að leggja allt í sölurnar,“ segir Elísabet en telur þó að konur eigi ekki að vera að velta sér of mikið upp úr því af hvaða kyni þær eru.



„Mér finnst konur oft búa til vandamál sjálfar þegar þær fara að hugsa of mikið um að þær séu konur,“ segir Elísabet sem er þó hlynnt því að til séu hópar sem berjast fyrir aukinni þátttöku kvenna í atvinnulífinu.

Stefnir heim

Þrátt fyrir mjög góða velgengni í útlöndum stefnir Elísabet að því að koma heim að lokum, hvort sem það verður eftir eitt ár eða tíu. „Ég hef í raun ekki ákveðið hvað ég vil starfa við í framtíðinni en á meðan vinnan er krefjandi og borgar reikningana þá er ég ánægð.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×