Innlent

Silfurpeningurinn kominn og farinn

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
„Ég orgaði af gleði þegar íslenska landsliðið vann silfrið, en ég orgaði alveg jafn mikið þegar peningurinn kom í hús.“ Þetta segir eigandi safnarabúðar en hann hafði milligöngu um sölu á silfurverðlaunapening íslenska landsliðsins.

Sigurður í Safnaramiðstöðinni á Hverfisgötu var aðeins með silfurverðlaunapeningin í húsi í um sólarhring. Hér er um að ræða eina af fjórtán silfurmedalíum sem íslenska landsliðið í handknattleik tók með sér heim af Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.

Sigurður vildi ekkert gefa upp um seljanda eða mögulegan kaupanda þegar fréttastofa ræddi við hann í dag. Jafnframt er erfitt að áætla verðgildi verðlaunapeningsins, en það hleypur á milljónum króna.

„Þetta er náttúrulega alveg stórkostlegur gripur, jafnvel þegar horft er framhjá afrekum landsliðsins. Hér er að finna ríka og djúpa sögu,“ segir Sigurður Helgi Pálmason, eigandi Safnaramiðstöðvarinnar.

Sp. blm. Eru margir búnir að sýna þessu áhuga?

„Já, það er búin að vera mikill áhugi. Það er núna komið vilyrði fyrir sölu á medalíunni, sem er frábært. Það er virkilega gaman að fólk skuli hafa svona mikin áhuga á þessu.“

Salan á medalíunni hefur vakið hörð viðbrögð. Fólk skiptist í hópa, sumir harma söluna á meðan aðrir benda á rétt handknattleiksmannsins til að losa sig við gripinn. En verðlaunapeningurinn er nú horfinn á braut en seljandinn og kaupandinn komust að samkomulagi í dag. (nánar á Vísi)

Sp. blm. Er þetta hið heilaga gral í myntsöfnun?

„Þetta er einn flottasti hlutur sem ég hef fengið í búðina og ég er bara búinn að vera hér í fjóra mánuði. Ég talaði um að ég hafi orgað þegar landsliðið vann silfrið en ég orgaði alveg jafn mikið þegar peningurinn kom í hús.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×