Viðskipti innlent

Fjárfestingafélag kaupir gamla Borgarbókasafnið

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Fjárfestingafélagið Aztiq Pharma hefur keypt gamla Borgarbókasafnið í Þingholtsstræti af Ingunni Wernersdóttur.

Í samtali við fréttastofu sagði Árni Harðarson, framkvæmdarstjóri Aztiq, að ákveðið hafi verið að kaupa þetta sögufræga hús þegar það fór á sölu. Hann segir áfram verði unnið að uppbyggingu hússins og endurgera það í sínum gamla stíl. Um sé að ræða fallegt hús með langa sögu.

Árni segist eiga 83 prósent í félaginu og 17 prósent séu í eigu bandaríks fjárfestis í gegnum fjárfestingabanka JP Morgan.

Aztiq Pharma er 100 prósent í eigu skattaskjólsfélagsins Aztiq Cayman, sem eins og nafnið gefur til kynna er skráð á Cayman-eyjum. Samkvæmt stofngögnum Aztiq Pharma, frá 30. júní 2010, er Róbert Wessmann prókúruhafi og stjórnarmaður í félaginu ásamt Árna Harðarsyni.

Á DV er greint frá því að félagið muni koma að byggingu samheitalyfjafyrirtækisins Alvogen á lyfjaverksmiðju í Vatnsmýrinni. Félagið hefur meðal annars staðið í skuldabréfaútboði á þessu ári þar sem fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands var nýtt til að koma með 220 milljónir króna hingað til lands.

Eignarhaldið á húsinu í Þingholtsstræti og Aztiq Pharma er í gegnum félag í skattaskjólinu Cayman-eyjum sem heitir Aztiq Cayman L.P.



Uppfært:

Árni segir að skráning félagsins á Cayman-eyjum sé eingöngu vegna þess að bandarískur fjárfestir í félaginu hafi óskað eftir því fyrirkomulagi. Móðurfélag þess félags sé hinsvegar íslenskt og að hann eigi það félag á móti bandarískum fjárfesti og tekur fram að Astiq greiði öll gjöld á Íslandi enda sé það skráð sem íslenskt félag. Árni segir að félagið muni áfram horfa til Íslands með frekari fjárfestingar í huga.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×