Viðskipti innlent

Óttast að skuldaaðgerðir leiði til verðbólgu og veiki krónuna

Höskuldur Kári Schram skrifar
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands telur viðbúið að skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar muni auka verðbólgu og veikja gengi krónunnar. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, útilokar ekki að sérfræðihópur ríkisstjórnarinnar hafi mögulega vanmetið áhrif aðgerðarinnar á íslenskt efnahagslíf.

Stýrivextir Seðlabanka íslands verða óbreyttir samkvæmt ákvörðun Peningastefnunefndar. Fram kemur í yfirlýsingu nefndarinnar að niðurstaða kjarasamninga muni hafa afgerandi áhrif á verðbólguhorfur og þróun vaxta á næstu misserum. Verði launahækkanir umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði bankans sé líklegar að vextir muni hækka.

Nefndin telur ennfremur að skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar muni að óbreyttu auka innlenda eftirpurn og verðbólgu. Innflutningur muni aukast og gengi krónunnar veikjast.

Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, sagði á blaðamannafundi í morgun að áhrifin yrðu að öllum líkindum meiri en gert er ráð fyrir í skýrslu sérfræðihóps ríkisstjórnarinnar um skuldaaðgerðirnar.

„Ég held hins vegar að það sé óhætt að segja að okkar mat verður að einhverju leyti annað en það sem kom fram í skýrslu Analytica. Ég ætla ekki að fara í neinn palladóm um þá skýrslu en við munum auðvitað hafa miklu meiri tíma til að gera þessa úttekt.Við erum með miklu þróaðra líkan til þess að meta áhrifin,“ sagði Már.

Sérfræðihópurinn hafi haft stuttan tíma til að meta áhrifin.

„Þeim er bara auðvitað vorkun. Þeir höfðu skamman tíma og kannski ekki tólin til þess að gera þetta,“ sagði Már.

Miðað við umfang aðgerðanna og dreifingu þeirra yfir tíma ætti þéttara taumhald peningastefnunnar að duga til þess að verðbólgumarkmiðið náist á næstu misserum, að öðru óbreyttu.

„Okkur sýnist, það sé nokkuð ljóst, að eftirspurnaráhrifin verði meiri en þar er verið að tala um og þ.a.l. hugsanleg verðbólguáhrif. Hver verðbólguáhrifin verða fer þá eftir viðbrögðum okkar að einhverju leyti,“ sagði Már.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×