Viðskipti innlent

Delta flýgur daglega á milli Íslands og New York í sumar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Delta hefur á ný áætlunarflug milli Íslands og New York.
Delta hefur á ný áætlunarflug milli Íslands og New York.
Flugvélagið Delta Air Lines hefur staðfest að beint sumarflug félagsins milli Keflavíkurflugvallar og Kennedy flugvallar í New York hefjist á ný 5. júní 2014 en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Til að byrja með verða fimm flug í viku á flugleiðinni, en frá 12. júní verður flogið daglega í samvinnu við Air France KLM sem er samstarfsaðili Delta.

„Flugfélagið Delta býður flugfarþegum frá Keflavík fjölbreyttara val á flugferðum til Bandaríkjanna yfir sumarmánuðina þegar flestir eru á faraldsfæti,“ segir Perry Cantarutti aðstoðarforstjóri Delta í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku.

„Næsta sumar munu flugfarþegar okkar upplifa ýmsar nýjungar í þjónustu um borð í þotunni og jafnframt í hinni nýju og glæsilegu flugstöð Delta á Kennedy flugvelli.“

Flugfélagið Delta flytur um 160 milljónir farþega á ári. Delta var útnefnt af tímaritinu Fortune „dáðasta flugfélag í heimi“ í annað sinn árið 2013 þegar tímaritið birti lista yfir World’s Most Admired Companies. 

Delta er með eitt fullkomnasta flugáætlananet heimsins sem nær til 314 áfangastaða í 59 löndum í sex heimsálfum.

Höfuðstöðvar Delta eru í Atlanta í Bandaríkjunum en 80 þúsund starfsmenn eru hjá fyrirtækinu.

Delta býður upp á 15 þúsund áætlunarflug á hverjum sólarhring.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×