Viðskipti innlent

Hægir á fjölgun utanlandsferða

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Mynd/Valli
Utanlandsferðum Íslendinga hefur fjölgað hratt milli ára frá hruni en nú hefur hægt á þessari þróun. Vefritið Túristi segir frá þessu.

Það sem af er ári hafa rúmlega 340 þúsund farþegar ferðast frá Keflavíkurflugvelli. Þeim fjölgaði um 1% frá sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Þetta er töluvert minni vöxtur en árin á undan því ferðum Íslendinga til útlanda fjölgaði um 5% í fyrra og 16% á milli áranna 2011 og 2012.

Á Túristi segir að það stefni í að árið í ár verði á pari við það síðasta, þegar litið er til ferða Íslendinga, þrátt fyrir að framboðið á flugi hafi aukist þónokkuð frá því í fyrra.

Til dæmis buðu Icelandair, Wow Air og Easy Jet upp á samtals 110 fleiri ferðir héðan í síðasta mánuði en á sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Túrista. Það jafngildir um fimmtungs aukningu.

Ferðum útlendinga frá Keflavíkurflugvelli heldur hins vegar áfram að fjölga hratt en vægi íslenskra farþega hefur minnkað um nærri 4% það sem af er ári.

Á tímabilinu janúar til nóvember í fyrra voru Íslendingar 35,3% þeirra sem flugu frá Keflavík en í ár er hlutfallið komið niður í 31,5%.

Í talningu Ferðamálastofu eru farþegar sem aðeins millilenda í Keflavík ekki taldir með.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×