Viðskipti innlent

HS Orka vill semja við álver í Helguvík

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður HS Orku.
Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður HS Orku. Mynd/GVA
Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður HS Orku, segir fyrirtækið enn hafa fullan hug á því að ná samningum um orkusölu til álvers Norðuráls í Helguvík. Þetta sagði Ásgeir í dag þegar viðbragða hans var leitað vegna frétta í morgun um að Michael Bless, forstjóri Century Aluminium, eiganda Norðuráls, væri tilbúnn að afskrifa álverið í Helguvík.

„Við höfum ennþá fullan hug á að ná samningum og höfum unnið að því allan tímann," sagði Ásgeir í samtali við fréttastofuna. Spurður hvort hann væri bjartsýnn á að samningar tækjust svaraði Ásgeir: „Við trúum því að það geti gerst. En hvort það gerist veit ég ekki."

Viðskiptablaðið skýrði frá ummælum forstjóra Century Aluminium, sem féllu á fundi fyrr í vikunni með greiningaraðilum í Bandaríkjunum. Þar sagði Michael Bless orkuverð óásættanlegt sem HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur byðu og Landsvirkjun væri ekki í stakk búin til að útvega þá orku, sem þyrfti. Sagðist hann vera tilbúinn til að líta á fjárfestingu Century Aluminium í Helguvík sem glatað fé.



Michael Bless, forstjóri Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls.
Þessi ummæli álversforstjórans koma aðeins þremur og hálfum mánuði eftir að hann lýsti í fréttum Stöðvar 2 bjartsýni um að samningar gætu tekist. Í viðtali í lok ágústmánaðar kvaðst Michael Bless vonast til þess að framkvæmdir við álverið í Helguvík gætu farið á fullt í vetur og álframleiðsla hæfist eftir tvö ár.  Hann sagðist finna fyrir miklum velvilja frá íslenskum stjórnvöldum. Samningaviðræður um orkukaup hefðu gengið ágætlega og hann væri bjartsýnn á að hægt yrði að ná samkomulagi.


Tengdar fréttir

Vilja hefja framkvæmdir við Helguvík í haust

Forstjóri Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls, vonast til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir við álverið í Helguvík í haust. Hann segist finna fyrir miklum velvilja frá íslenskum stjórnvöldum en hann fundaði með iðnaðarráðherra í morgun.

Litlar líkur á álveri í Helguvík

Forstjóri Century Aluminium sagði að ekki yrði farið lengra með álver í Helguvík, nema arðsemin yrði einstaklega góð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×