Innlent

Stuldur á hönnun vaxandi vandamál

Hrund Þórsdóttir skrifar
Vöruhönnuðurinn Guðrún Hjörleifsdóttir skrifar grein í Kvennablaðið undir yfirskriftinni, Má stela? og segir að Íslendingum finnist almennt í lagi að stela hönnun og græða á henni. Eftirlíkingar séu seldar í stórum stíl, t.d. á bland.is og eftir sitji hönnuðir með sárt ennið og himinhá námslán.

Svana Lovísa Kristjánsdóttir er hönnuður sem skrifaði BA ritgerð um hönnunareftirlíkingar og hún tekur undir þetta. „Hönnunarstuldur er vaxandi vandamál með tilkomu internetsins og svo eru orðnar til síður eins og Ali Express, þar sem auðveldlega er hægt að nálgast eftirlíkingar. Fólk er í auknum mæli að kaupa eftirlíkingar og þá oftast ef upprunalega varan er eftirsótt,“ segir Svana.

Svana segir Íslendinga skorta virðingu fyrir verkum hönnuða og að margir búi til eftirlíkingar heima hjá sér. „Hönnun er samt ekki sameign þjóðarinnar. Þetta er eingöngu eign þess sem skapaði hana,“ segir hún.

Í grein sinni tekur Guðrún dæmi um hálsmen eftir Hlín Reykdal sem seldar séu eftirlíkingar af í gegnum netið. Þá segir Heiðdís Helgadóttir, sem teiknað hefur vinsælar uglumyndir, eftirlíkingar af þeim í umferð.

Við vinnslu fréttarinnar var rætt við marga hönnuði og allir sögðu þetta stórt vandamál. Einn stendur í málaferlum við stórt fyrirtæki í Skandinavíu og nokkrir sögðust hafa leitað til lögfræðinga í þeim tilgangi að verja hönnun sína, innanlands og utan.

Í Bandaríkjunum var árið 2008 stofnað fyrirtæki í kringum stolna hönnun frá Vík Prjónsdóttur, svokallaða skegghúfu, og lifir fyrirtækið góðu lífi. Þar sem alþjóðleg hönnunartímarit höfðu fjallað um húfuna var hægt að sanna að upprunalega hönnunin væri héðan, en eftir mikla umhugsun var ákveðið að fara ekki í mál. „Maður þarf að vera með bandarískan lögfræðing og þetta kostar vinnu og fjármagn. Við bara treystum okkur ekki í þann slag vegna þess að það er líka svo auðveldlega hægt að breyta vörunni pínulítið og þá er það nóg til að þú getir framleitt hana,“ segir Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir, vöruhönnuður og einn eigenda Víkur Prjónsdóttur.

Þannig að þeir halda áfram að græða á ykkar hönnun?

„Já.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×