Innlent

"Það þarf að hrópa á torgum núna“

Ólöf Sigursveinsdóttir
Ólöf Sigursveinsdóttir
„Það reynir á lýðræðið í landinu þessa dagana. Ríkisútvarpið okkar er í hættu!“ segir Ólöf Sigursveinsdóttir en hún er einn skipuleggjenda svokallaðrar Hlustendavöku á Austurvelli í dag klukkan fimm.

„Ég er að fara til útlanda á morgun og mín samviska sagði mér að ég yrði að gera eitthvað áður en ég færi,“ segir Ólöf jafnframt. „Við viljum reyna að ná fram hjarta hlustenda á Austurvöll til að þrýsta á stjórnendur að skilja hvað RÚV snýst um og hvað það er stór hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar,“ bætir Ólöf við.

„Það er ómannúðleg stjórn á RÚV núna - við viljum mannúðlegri stjórn og gegnsæi í stjórnarháttum,“ útskýrir Ólöf.

„Þessi samstöðufundur er til að varpa ljósi á hversu mikilvæg hlustun er fyrir okkur. Hún gerir okkur umburðarlyndari, fróðari, glaðari og forvitnari.“

Þeir sem koma til með að tala á Hlustendavökunni eru Örn Bárður prestur í Neskirkju, Hilmar Örn Hilmarsson, hjá Ásatrúarfélaginu, Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur og Einar Már Guðmundsson ætlar að lesa upp ljóð. Hallfríður Ólafsdóttir, þverflautuleikari, Brynhildur Björnsdóttir, dagskrárgerðarmaður ætla að flytja erindi og Magnús Ragnarsson verður með kórinn sinn. 

„Svo ætlar hann Garðar að tala, hann er ungur drengur sem er aðdáandi Leynivinafélagsins. Ungur útvarpsmaður. Ég held að hann sé tólf ára. Hann ætlar að tala um hvað það er mikilvægt að hafa barnaefni í útvarpi.“

„Það þarf að hrópa á torgum núna,“ segir Ólöf og hvetur sem flesta til að leggja leið sína á Austurvöll. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×