Innlent

Geta dylgjað um kennara í skjóli nafnleyndar og það er tekið alvarlega

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Nafnlaus tilkynning sem barst um kennara í Norðlingaskóla sem reyndist haldlaus var mjög almenn og ósérgreind. Svo virðist sem hver sem er geti dylgjað um kennara í skjóli nafnleyndar og það sé tekið alvarlega.

„Góðan dag, er þetta á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar? Mig langar að koma að nafnlausri ábendingu um kennara í Norðlingaskóla, Jón Jónsson. Hann á ekki að vinna með börnum. Hann er hættulegur börnum. Skoðið bakgrunn hans. Nei, ég hef ekkert til að bakka þetta upp en þið verðið að koma þessu á framfæri.“

Það var einhvern veginn svona þegar tilkynning barst í gegnum síma inn á skóla- og frístundavið Reykjavíkur um Ragnar Þór Pétursson kennara.

Engin gögn eru til um símtalið og ekki var skráð niður nákvæmt efni símtals. Hins vegar var send tilkynning bréflega til Barnaverndar Reykjavíkur sem hóf rannsókn á grundvelli 35. gr. barnaverndarlaga. Þar sem vó þyngst í þeirri ákvörðun var bréfið frá skóla- og frístundasviði.

Tjón á mannorði þegar orðið

Könnun Barnaverndar eiddi í ljós að ásakanirnar voru úr lausu lofti gripnar og málið fellt niður. Engu að síður var orðið tjón á mannorði kennarans og hann sagði starfi sínu lausu í stað þess að hefja aftur störf í Norðlingaskóla.

Um var að ræða vinsælan kennara sem naut virðingar í starfi. Ragnar Þorsteinsson formaður skóla- og frístundasviðs staðfesti í samtali við fréttastofu í gær að ekki hefði verið gert skriflegt minnisblað um efni símtals og að kvörtunin hafi verið almenns eðlis.

Þetta er það ástand sem kennarar í Reykjavík þurfa að búa við. Hver sem er getur í raun hringt inn og sakað nafngreinda kennara um viðbjóðslega glæpi og það er rannsakað. Samkvæmt 21. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd sveitarfélags, í þessu tilviki Barnavernd Reykjavíkur, taka afstöðu án tafar til þess hvort hefja eigi könnun.

Orðin „skal“ og „án tafar“ þýða að þetta er ekki valkvætt. Málið vekur hins vegar upp spurningar um fíltersleysi í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, en tekin var ákvörðun um að senda skriflega tilkynningu áfram til Barnaverndar á grundvelli mjög veikra upplýsinga.

Hvers vegna var ekki tekið neitt niður skriflega um efni símtalsins?

Í ljós kom að ásökun á hendur kennaranum var haldlaus. Spurningarnar sem blasa við eru þessar:

Hvers vegna var ekki tekið neitt niður skriflega um efni símtalsins sem barst?

Getur hver sem er hringt og dylgjað um hvaða kennara sem er og það er tekið áfram til Barnaverndar Reykjavíkur ef ástæða er til?

Eru það vandaðir stjórnsýsluhættir að taka ekki niður nákvæmar upplýsingar um efni símtala af þessu tagi ef upplýsingarnar eiga að vera grundvöllur formlegrar áframsendingar til annars stjórnvalds, í þessu tilviki Barnaverndar Reykjavíkur?

Enginn starfsmaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sem fréttastofa hefur rætt við kann svar við fyrstu spurningunni. Fljótt á litið er svarið við annarri spurningunni jákvætt. Þriðja spurningin er hugarfóður fyrir embættismenn á vegum Reykjavíkurborgar.  

Skóla- og frístundasvið sendi almenna tilkynningu skriflega til Barnaverndar án þess að efni símtalsins væri þar sérgreint.

Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, sagði að nefndin væri yfirleitt tortryggin gagnvart nafnlausum tilkynningum frá þriðja aðila. Hins vegar hafi í þessu tilviki verið um að ræða skriflega tilkynningu stjórnvalds (skóla- og frístundasvið innsk.blm) eftir að símtal barst og því hafi hún verið tekin alvarlega.


Tengdar fréttir

Biðlar til fólks að vanda sig

„Vöndum okkur. Heift er ekki rétt svar við ranglæti. Heift er ekki rétt svar við neinu." segir Ragnar Þór Pétursson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×