Innlent

Jólakötturinn er tískulögga

Hrund Þórsdóttir skrifar
Nú fyrir helgi var tilkynnt á Rás 2 hvaða verslanir hefðu orðið hlutskarpastar í keppni um fegursta jólagluggann í miðborginni.

Jón Gnarr borgarstjóri var viðstaddur og sagði metnaðarfulla verslunareigendur eiga þátt í að Reykjavík væri ár eftir ár valin ein eftirsóttasta jólaborg heims.

Í þriðja sæti í keppninni um fegursta jólagluggann, varð Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar. Verslunin Hrím hönnunarhús var í öðru sæti og verslunin Geysir á Skólavörðustíg sigraði keppnina.

Vöruhönnuðurinn Þórunn Árnadóttir hannaði skreytinguna og Sonja Margrét Ólafsdóttir, verslunarstjóri í Geysi, segir jólaköttinn þemað í ár. „Hann er settur fram hérna í glugganum sem tískulögga sem fylgist með þér þegar þú labbar framhjá, hvort þú fáir ekki örugglega ný föt eða eitthvað nýtt fyrir jólin og farir ekki í jólaköttinn,“ segir Sonja.

Verðlaunin eru óhefðbundin því borgarstjórinn mun afgreiða í versluninni í klukkustund og þeir sem vilja njóta þjónustu hans geta nálgast upplýsingar á facebooksíðu Geysis.

Í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt má sjá myndir af hinum glæsilegu gluggum auk þess sem rætt er við vegfarendur um álit þeirra á vali dómnefndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×