Viðskipti innlent

Telja sölu ESÍ draga úr nafnvaxtahækkunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Pjetur
„Tilkynning Seðlabankans í gær um sölu á eignum úr safni Eignasafns Seðlabankans (ESÍ) eru stór tíðindi fyrir íslenska eignamarkaði. Hvernig og hvenær undið verður ofan ESÍ getur ráðið miklu um framboð fjárfestingarkosta og lausafjár á markaði og þ.a.l. vaxtastig og verðbólgu á Íslandi.“

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

„Sala eigna ESÍ er mótvægisaðgerð af hálfu bankans til að draga úr óæskilegum áhrifum of mikil lauss fjár í umferð á Íslandi, en Greiningardeild hefur fjallað ítarlega um lausafjárvandann, tildrög hans og mögulegar úrlausnir í Markaðspunktum. Samandregið þá stuðlar eignasala ESÍ að hækkun á ávöxtunarkröfu á markaði eins og raunin hefur orðið  á skuldabréfamarkaði í morgun. Til lengri tíma dregur hún úr líkum á ósjálfbærri hækkun eignaverðs í gjaldeyrishöftum.“

Forsvarsmenn Seðlabankans lýstu, á síðasta vaxtaákvörðunarfundi, áhyggjum af því að skuldaniðurfellingin gæti haft þau áhrif að peningamagn yrði virkara með tilheyrandi þrýstingi á verðlag og væri því ekki hlutlaus gagnvart peningamagni.

„Eignasalan er enda fyrst og fremst peningamagnsaðgerð og dregur úr lausafjárgnótt á fjármálamörkuðum, og þar með verðbólguþrýstingi af þess völdum. Með því að draga úr ofgnótt lausafjár í bankakerfinu (sem endurspeglast einna best í hárri stöðu bankanna í innstæðubréfum) gæti hún jafnframt ýtt undir viðskipti á millibankamarkaði, stuðlað að hækkun millibankavaxta (REIBOR) nær stýrivöxtum og aukið þar með áhrifamátt vaxtatækis Seðlabankans.“

Því telur greiningardeildin að eignasala ESÍ muni draga mjög verulega úr þörf og líkum á nafnvaxtahækkunum á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×